Anna Sigrún Baldursdóttir sem nýverið tók við stöðu framkvæmdastjóra skrifstofu forstjóra Landspítala er með 1.915.074 krónur í heildarlaun. Anna Sigrún var áður aðstoðarmaður forstjóra á spítalanum og þáði fyrir þá vinnu 1.750.048 krónur í heildarlaun. Fylgdi tignarhækkun Önnu því 165 þúsund króna launahækkun.
Tveir umsækjendur voru um stöðu framkvæmdastjóra skrifstofu forstjóra spítalans, sem er ný staða, en auk Önnu sótti Oddur Þórir Þórarinsson læknir og sjálfstætt starfandi lögmaður um starfið. Starfið var auglýst um miðjan maí á þessu ári. Mannauðsdeild spítalans annaðist gerð hæfniskrafa. Í valnefnd sátu forstjóri spítalans, framkvæmdastjóri mannauðsdeildar og Guðfinna Bjarnadóttir sem utanaðkomandi ráðgjafi.
Í svari spítalans um málið segir að árið 2019 hafi verið gerðar umfangsmiklar breytingar á skipuriti stofnunarinnar sem leiddu til þess að framkvæmdastjórastaðan varð til. Undir framkvæmdastjóra skrifstofu forstjóra spítalans heyrir nú verkefni sem áður heyrðu undir verkefnastjóra framkvæmdastjóra innviða, samskiptadeild, deild innri þjónustu, lögfræðideild auk Hringbrautarverkefnisins, sem er bygging nýs Landspítala við Hringbraut.
Samhliða breytingunum fækkaði framkvæmdastjórum deilda um einn og mun því launakostnaður lækka við breytingarnar, að því er segir í svari Landspítalans.
Í frétt Morgunblaðsins í dag sagði að kostnaður við rekstur skrifstofu spítalans hefði aukist um 115% á tíu árum og því haldið fram að kalt stríð ríki nú á milli stjórnenda spítalans og lækna. Páll Matthíasson svaraði höfundi fréttar Morgunblaðsins, Stefáni Einari Stefánssyni, fullum hálsi í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Landspítalans og í viðtali á Bylgjunni í morgun.