Von er á enn einni reglugerð ráðherra um viðbrögð ríkisins við Covid faraldrinum samkvæmt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Katrín sagði í kjölfar reglulegs ríkisstjórnarfundar í dag að skoða þyrfti að nýtast við hraðpróf í meiri mæli og þrengja þann hóp sem sendur er í sóttkví í tilfelli smita. Til stendur að setja reglugerð í þá áttina á næstu dögum.
Sótt hefur verið að Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni úr öllum áttum undanfarna daga og ákvarðanir hans og Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um beitingu sóttkvíar á börn verið harðlega gagnrýnd. Á meðal þeirra sem krafist hafa breytinga á reglum sóttvarnayfirvalda eru Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Samkvæmt Katrínu myndi foreldri ekki lenda sjálfkrafa í sóttkví ef barn greinist með Covid. Eins yrði til enn eitt hugtakið í sóttvarnafræðunum, eða svokölluð heimasmitgát, þar sem fólk megi fara í verslanir, í vinnu, en haldi sig frá viðkvæmum þjóðfélagshópum, til dæmis hjúkrunarheimilum.
Verði reglugerðin sem Katrín boðaði í dag að veruleika yrði það að minnsta kosti 127. reglu- og lagasetning löggjafa- og framkvæmdavaldsins sem viðbrögð við Covid faraldrinum.
33 reglugerðir eru nú í gildi sem snúa með beinum hætti að Covid, að meðtöldum reglugerðum um breytingar á áður settum reglum. Er þá ekki tekið tillit til þeirra fjölmörgu annarra reglugerða sem tengjast þó faraldrinum. Af þeim 33 eru 20 runnar undan rifjum Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, eins og við var að búast. Til viðbótar við reglugerðirnar 33, hafa 70 verið brottfelldar í ár og í fyrra, sem tengdust faraldrinum beint.
Reglugerðir sem hafa með bein viðbrögð ríkisins við faraldrinum sjálfum að gera eru til að mynda reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna Covid-19, nr. 1199/2020 en henni hefur síðan hún var sett í fyrra verið breytt margoft.
Sem dæmi um reglugerðir sem tengjast faraldrinum með óbeinni hætti en sú sem hér að ofan var nefnd, mætti nefna reglugerðir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins um ferðagjöfina, eða reglugerðir fjármálaráðuneytisins um lokunarstyrki til fyrirtækja. Þær skipta tugum, ef ekki hundruðum og eru ekki taldar með hér.
Þá hefur Alþingi Íslendinga sett 23 lög sem tengjast Covid faraldrinum. Á meðal þeirra eru til dæmis ný sóttvarnarlög sem fengust samþykkt síðasta haust og lög sem heimiluðu tímabundnar greiðslur til þeirra sem sæta sóttkví.
Þá er ljóst að fjárlögin fyrir árið 2021 snérust að miklu leyti um að fjármagna rándýrar aðgerðir ríkisins vegna faraldursins og efnahagslegra áhrifa hans. Fyrir árið 2021 hafa þegar verið afgreidd tvenn fjáraukalög, en árið 2020 þurfti fimm sinnum að dýpka vasa ríkisins með afgreiðslu fjáraukalaga.
Samtals eru því bein lög og reglur sem settar hafa verið vegna Covid faraldursins, að teknu tilliti til reglna og laga sem breyta fyrrnefndum lögum og reglum og brottfallinna reglna, orðin 126 en óbeinar líklega á þriðja hundrað.
Tekið skal fram að mat á hvaða reglugerð tengist „með beinum hætti,“ og ekki að aðgerðum við Covid faraldrinum, er alfarið byggt á persónulegu mati blaðamanns.
Líkt og DV greindi frá í morgun sást til Katrínar Jakobsdóttir á leik KR og Víkings R. í Vesturbænum í Lengjudeild kvenna í gær. Þrátt fyrir grímuskylda var enga grímu að sjá framan á forsætisráðherranum. Grímuskylda á fótboltaleikjum utandyra hefur vakið mikla úlfúð meðal fótboltaáhugamanna, enda fara leikirnir fram utandyra og miklar takmarkanir eru á því hversu margir mega mæta á völlinn, en 200 manns mega nú mæta í hvert hólf, og því nægt pláss á milli manna.
Katrín baðst síðar afsökunar á grímuleysinu í samtali við Vísi, og sagðist einfaldlega ekki hafa vitað hvernig reglurnar væru: „Svo virðist sem ég hafi brotið reglur sem ég áttaði mig ekki á, þar sem leikurinn var utandyra og fjarlægðartakmörk uppfyllt. Meginreglan um grímuskyldu er að maður skuli bera grímu ef ekki tekst að fylgja fjarlægðarmörkum.“
„Auðvitað á ég að fylgja reglum eins og aðrir,“ sagði forsætisráðherrann jafnframt við Vísi. „Ég legg mig fram við að fylgja reglum en ég er líka bara mannleg. Maður getur gert mistök.“
Í ljósi fjölda laga, reglna og breytinga þar á er líklega engin furða að forsætisráðherra ruglist sem aðrir.