fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Gabriel lamaður af ótta eftir árás á fimmtudag – „Ég á fimm ára son, ég þarf vernd“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 14. ágúst 2021 18:00

Myndefni aðsent. Mynd sýnir bílinn eftir atvikið, handlegg Gabriels með áverka og meint árásarvopn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gabriel Pruteanu heitir 31 árs gamall Rúmeni sem hefur verið búsettur á Íslandi í um tvo mánuði. Hann hefur nýlega fengið íslenska kennitölu og býr með eiginkonu og fimm ára gömlum syni í miðbæ Reykjavíkur.

Gabriel lenti illilega saman við landa sinn sem hér hefur búið lengur. Deilan snýst um bílaviðskipti en hún snerist upp í, samkvæmt Gabriel, hrottalegt ofbeldi og skemmdarverk síðastliðið fimmtudagskvöld. Gabriel óttast nú um líf sitt og öryggi fjölskyldunnar.

„Ég sá bíl auglýstan á netinu og keypti hann af þessum manni. Þar sem ég var ekki kominn með kennitölu þá var bíllinn áfram á hans nafni eins og hann stakk upp á,“ segir Gabriel í viðtali við DV.

Gabriel segir að tveimur vikum síðar hafi maðurinn tilkynnt bílinn stolinn til lögreglunnar. „En ég borgaði honum, ég lét hann fá peningana fyrir bílnum,“ segir Gabriel.

„Hann sagði að ég gæti haft bílinn á hans nafni, það væri ekkert vandamál, ég væri líka frá Rúmeníu eins og ég og ég mætti hafa bílinn svo lengi sem ég fengi ekki hraðasekt eða eitthvað þess háttar og það gekk bara fínt. En 14 dögum seinna hringir hann í lögregluna og segir að ég hafi stolið bílnum,“ segir Gabriel.

Upp úr sauð skömmu eftir miðnætti síðastliðið fimmtudagskvöld. „Ég var að koma heim til mín á bílnum, hann sat fyrir mér, keyrði síðan aftan á mig á sínum bíl, hann kom síðan út með viðarbút í hendinni og byrjaði að brjóta allar rúðurnar í bílnum. Hann barði mig í handlegginn með spýtunni og hann reyndi að drepa mig,“ segir Gabriel og segist hafa komist undan á hlaupum.

„Nágranni minn sá allt, hann tók myndir af bílnum eftir að hann var farinn og hann hringdi á lögregluna,“ segir Gabriel.

Ósáttur við viðbrögð lögreglu

„Ég hélt ég fengi einhverja vernd en þegar ég hafði samband við lögreglu var mér bara sagt að mæta í viðtal næsta þriðjudag,“ segir Gabriel skelfingu lostinn. „Ég sagði við lögregluna: Ég er ekki öruggur, hvers vegna fæ ég bara viðtal í næstu viku? Ég á fimm ára son, ég þarf vernd!“

„Ég á fimm ára son sem er einhverfur og talar ekki. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það hefði verið ef hann hefði verið með mér í bílnum,“  segir Gabriel. Hann segir að lögreglan þekki til hins meinta árásarmanns enda hafi hann komið við sögu hennar áður. Hann vill að lögreglan handtaki hann og verndi sig. Hann óttast um líf sitt og öryggi fjölskyldunnar.

„Ég kom hingað til að vinna. Ég vil bara lifa í friði, vinna og sjá fyrir fjölskyldu minni og reyna að koma syni mínum undir læknishendur,“ segir Gabriel.

„Hvernig get ég verið þarna með syni mínum. Hvað ef hann brýst inn og reynir að drepa mig?“ segir hann.

„Ég útskýrði fyrir lögreglunni að ég hefði unnið svart af því ég fékk byggingarvinnu og vinnuveitandinn var alltaf að lofa mér að ég fengi samninginn, samningurinn átti alltaf að koma á morgun,“ segir Gabriel sem er núna kominn með íslenska kennitölu.

„Ég hef ekkert brotið af mér heldur bara unnið fyrir mínum peningum. En þessi maður, hann á fullt af peningum en samt vinnur hann ekkert. Hvernig getur staðið á því?“

Eins og myndin sýnir varð hið meinta árásarvopn, viðarbútur, eftir í bílnum. Gabriel segir að viðarbúturinn sé nú hjá lögreglunni en spýtan hafi brotið við atganginn, þegar maðurinn var að brjóta bílrúðurnar með henni.

Sem fyrr segir fær Gabriel tækifæri til að kæra árásina á þriðjudag en hinn meinti árásarmaður gengur laus og Gabriel óttast um líf sitt og öryggi fjölskyldu sinnar.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt