Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að þegar bólusetningu barna lýkur í lok mánaðarins verði byrjað að bólusetja þessa hópa af fullum krafti. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is: „Þetta er alveg slatti af fólki.“
Hún sagði að byrjað verði á hjúkrunarheimilum og það verði hugsanlega strax í næstu viku. En aðallega verði hafist handa þegar búið sé að bólusetja börnin. Hún sagði að einnig væru hópar sem ekki væri alveg búið að ákveða hvernig staðið verði að bólusetningu á. Þetta eru þeir sem eru yfir áttræðu, ónæmisbældir og þeir sem eru eldri en sextugir.