Þetta segir í skýrslu um ráðandi tungumál í ferðaþjónustu hér á landi. Það voru Anna Vilborg Einarsdóttir, Ágústa Þorbergsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir sem unnu skýrslu á vegum Háskólans á Hólum og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag.
„Ferðaþjónustuaðilum virðist ekki auðvelt að halda íslenskri tungu á lofti eða nota hana í sinni þjónustu, en brýnt er að þeir átti sig á vandanum og velti fyrir sér hvernig best er að taka á málinu,“ segir í skýrslunni. Skýrsluhöfundar benda á að 2018 og 2019 hafi „flóðbylgjur erlendra ferðamanna“ gengið yfir landið og að aðstæður í ferðaþjónustunni hafi breyst hratt. „Vegna erfiðleika við að manna allar stöður með íslenskum starfsmönnum myndaðist mikil þörf fyrir erlent starfsfólk. Við það breyttust samskipti við þjónustufólk í „framlínunni“ þannig að í langflestum tilvikum heyrðist töluð enska en íslenska heyrðist sjaldnar,“ segja þær.
Þær benda einnig á að ferðaþjónustufyrirtækjum sem bera ensk nöfn hafi samtímis fjölgað og nýjustu auglýsingaskiltin séu meira og minna á ensku.
1.050 ferðaþjónustuaðilar, með erlend nöfn, fengu senda spurningakönnun og svöruðu 146. 30 viðtöl voru tekin á Suðurlandi og Norðurlandi. Í ljós kom að á 35% þessara staða er enska meginsamskiptatungumálið en í 41% eru það íslenska og enska saman. „Niðurstöður gefa vísbendingar um að ferðaþjónustuaðilar telji að enska verði að vera ráðandi tungumál í ferðaþjónustu, sérstaklega í markaðssetningu og færri en fleiri sjá ástæðu til þess að nota íslensku meðfram ensku,“ segir í skýrslunni.