Tíu einstaklingar liggja nú inni á Landspítalanum vegna kórónuveirunnar en tveir þeirra liggja á gjörgæsludeild. Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildarinnar á Landspítalanum, sagði í samtali við mbl.is í dag að það væri ný stefna spítalans að gefa ekki út upplýsingar um það hvort þeir sem liggja á gjörgæslu séu bólusettir eða ekki.
Runólfur hafði þó fyrr um daginn gefið þessar upplýsingar út í samtali við Vísi en þar sagði hann að þessir tveir einstaklingar sem liggja á gjörgæslu séu ekki fullbólusettir.
Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, furðaði sig á þessari nýju stefnu spítalans á Twitter-síðu sinni í dag. „Hvaða rugl er þetta?“ spyr Katrín og merkir deildarstjóra samskiptadeildar Landspítala, Stefán Hrafn Hagalín, í von um að fá svar.
DV hafði samband við Stefán fyrr í dag en þá sagðist hann ekki vita hvers vegna stæði á þessari nýju stefnu. Ljóst er að nú sé hann kominn með ástæðuna fyrir stefnunni en hún er þó alls ekki ný af nálinni. „Gömul stefna, lög nr. 34 frá 2012,“ segir Stefán í svari við færslu Katrínar á Twitter.
„Snýst um persónuvernd og trúnaðarskyldu gagnvart skjólstæðingum. Megum ekki veita neinar persónugreinanlegar upplýsingar. Alltof fáir á gjörgæslu til að veita upplýsingar um þá. Mistök að segja nokkuð upphaflega. Snýst ekki um annað.“
Maður að nafni Erlendur bendir þá Stefáni á að upplýsingarnar séu ekki persónugreinanlegar. „Það er enginn að biðja um nöfn og heimilisföng smitaðra heldur fremur almenna, nafnlausa tölfræði,“ segir Erlendur. „Já, við erum öll meðvituð um gögnin sem fólk vill sjá og ugglaust í meginatriðum sammála um þörfina,“ segir Stefán þá. „Lagaramminn setur okkur hins vegar mjög þröngar skorður með upplýsingagjöf þegar um litla hópa eða fáa einstaklinga er að ræða.“