Í morgun voru óléttar konur bólusettar við Covid-19 og mætti kona við Orkuhúsið og mótmælti bólusetningunum. RÚV greinir frá.
Konan veittist að heilbrigðisstarfsfólki en hún mætti á svæðið ásamt annarri konu um svipað leyti og hefja átti bólusetningar. Þegar reynt var að halda henni frá inngangnum byrjaði hún að öskra og veitast að heilbrigðisstarfsfólki.
Konan er meðlimur Coviðspyrnunnar og sagði að bólusetningar væru mjög skaðlegar, sakaði stjórnvöld um morð og sagði að það væri verið að sprauta eitri í fólk.
Konan var að lokum handtekin og öskraði hún: „Þetta er ólögleg handtaka“.
Fréttamenn RÚV voru á svæðinu að ræða við konurnar sem voru á leiðinni í bólusetningu og náðu atvikinu á myndband. Myndbandið má sjá í frétt RÚV.