fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
Fréttir

Flokksgæðingar raða sér í stjórnir ríkisfyrirtækja – Sjáðu hverjir eru hvar

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 25. júlí 2021 10:00

mynd/samsett DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt yfirliti Stjórnarráðsins eru 42 fyrirtæki ýmist að fullu eða að hluta í eigu ríkisins. Sum þeirra eru reyndar lítið annað en ríkisstofnanir í „ohf“ dulargervi. Nægir þar að nefna Lánasjóð íslenskra námsmanna, Seðlabankann og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

Mikill munur er á því hvernig þessum fyrirtækjum er stýrt og hversu mikil aðkoma hins opinbera er að stjórn þeirra. Í sumum tilfellum eru stjórnarmenn skipaðir beint af ráðherrum. Í öðrum eru stöðurnar auglýstar og enn annar staðar koma hagsmunaaðilar inn og skipa einstaka stjórnarmenn. Sumar hafa svo alls engar stjórnir, eins og til dæmis ÁTVR.

Í gamla daga voru stjórnarsetur í ríkisfyrirtækjum og stofnunum nýttir sem bittlingar til flokksgæðinga, þá gjarnan fyrir vel unnin störf, til dæmis í kosningabaráttum. Eitthvað hefur dregið úr þessu, sér í lagi hjá stórum og kerfislægt mikilvægum ríkisfyrirtækjum. Pósturinn skartar til að mynda engum flokksgæðing í augnablikinu að því er best. Þó er það ekki svo að tekist hefur að stroka flokksgæðinga alveg út af sakramentinu. Þvert á móti.

Risarnir tveir hýsa gæðinga úr Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu

Langstærstu fyrirtæki í eigu ríkisins eru Landsvirkjun og Landsbanki Íslands, en samanlagt eigið fé fyrirtækjanna eru rúmir 500 milljarðar króna.

Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlut ríkis í bönkunun og skipar stjórnir þeirra. Þær stöður hafa verið auglýstar og ráðið samkvæmt þeim. Hins vegar situr í stjórn Bankasýslu ríkisins Vilhjálmur Bjarnason og Kristrún Heimisdóttir í varastjórn. Vilhjálmur Bjarnason var um tíma þingmaður Sjálfstæðisflokksins en datt af þingi í kosningunum 2017. Hann gaf kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi fyrir kosningarnar í haust, en hlaut ekki erindi sem erfiði. Kristrún var varaþingmaður Samfylkingarinnar um tíma.

Vilhjálmur Bjarnason situr í stjórn Bankasýslu ríkisins, mynd/Ernir

Hjá Landsvirkjun vekur helst athygli að Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur og fyrrum þingmaður og heilbrigðisráðherra Vinstri grænna er varaformaður stjórnarinnar. Með henni í stjórninni er svo Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, fyrrum borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina.

Álfheiður Ingadóttir mynd/Landsvirkjun

Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur löngum verið þéttsetin pólitískum velvildarmönnum réttu ráðherranna og iðulega það fyrsta sem nýr menntamálaráðherra gerir að hreinsa þar stjórnina út og koma sínu fólki að. Engin breyting varð á því nú. Lárus S. Lárusson, stjórnarformaður LÍN er innmúraður Framsóknarmaður, skipaður í stjórnina af Lilju Alfreðsdóttur. Lárus leiddi lista Framsóknar í Reykjavík norður í síðustu Alþingiskosningum. Þá situr Teitur Björn Einarsson fyrrum varaþingmaður Sjálfstæðismanna í stjórninni. Teitur er tilnefndur af Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra. Teitur er jafnframt mágur Illuga Gunnarssonar, fyrrum ráðherra flokksins.

Í stjórn Náttúruhamfaratrygginga Íslands sitja fimm. Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson skipar formann stjórnar sem er Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrum þingmaður flokksins. Aðrir eru ýmist kosnir af Alþingi eða skipaðir af Samtökum fjármálafyrirtækja. Á meðal stjórnarmanna er jafnframt Ragnar Þorgeirsson, fyrrum varaþingmaður Framsóknarflokks.

Fjórflokkurinn og Pírati stjórna Rarik

Þá vekur athygli að allir fimm stjórnarmenn Rariks eru fyrrum þingmenn, eða varaþingmenn. Álfheiður Eymarsdóttir var varaþingmaður Pírata, Birkir Jón Jónsson sat á þingi fyrir Framsókn og er nú í bæjarpólitíkinni í Kópavogi fyrir flokkinn, Valgerður Gunnarsdóttir sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Kristján L. Möller var þingmaður og ráðherra fyrir Samfylkinguna og Arndís Soffía Sigurðardóttir er fyrrverandi varaþingmaður VG.

Allir í stjórn Rarik hafa tengsl við stjórnmálaflokka. mynd/Rarik.is

Í stjórn Náttúruhamfaratrygginga Íslands sitja fimm. Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson skipar formann stjórnar sem er Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrum þingmaður flokksins. Aðrir eru ýmist kosnir af Alþingi eða skipaðir af Samtökum fjármálafyrirtækja. Á meðal stjórnarmanna er jafnframt Ragnar Þorgeirsson, fyrrum varaþingmaður Framsóknarflokks.

Pólitískir aðstoðarmenn stjórna flugmálum á Íslandi

Einhverra hluta vegna virðast pólitískir aðstoðarmenn, bæði núverandi og fyrrverandi raðast vel í stjórn Isavia ohf.

Matthías er jafnframt fyrrverandi forstjóri Iceland Express. mynd/Anton Brink

Stjórnarformaðurinn Orri Hauksson, forstjóri Símans, var eitt sinn aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar. Matthías Páll Imsland aðstoðaði Sigmund Davíð þegar hann sat í forsætisráðuneytinu, sem og Eygló Harðardóttur í félagsmálaráðuneytinu. Þá hefur Matthías gert það gott í fasteignabraski undanfarin misseri. Eva Pandora Baldursdóttir sat á þingi fyrir Pírata um tíma. Í varastjórn Isavia situr enn fremur Ingveldur Sæmundsdóttir, núverandi aðstoðarmaður formanns Framsóknarflokksins, Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Með Ingveldi í varastjórn er hún Björg Eva Erlendsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Vinstri grænna.

Ingveldur Sæmundsdóttir mynd/Framsokn.is

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar varð til við brottför hersins frá Keflavíkurflugvelli og sér um þróun og uppbyggingu á flugvallarsvæðinu á Miðnesheiði. Skipun stjórnarformannsins Ísaks Ernis Kristinssonar vakti undrun á sínum tíma, en tengdafaðir Ísaks, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, skipaði í stöðuna. Þótti Ísak helst til ungur og reynslulítill í stöðuna, auk þess sem augljós tengsl skipandans og hins skipaða þóttu mikil.

Orkubú Vestfjarða fær fram að aðalfundi félagsins 2021, hið minnsta, að njóta stjórnarformennsku Illuga Gunnarssonar, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Illugi hefur reynslu af orkumálum, en hann sagði af sér vegna tengsla við fyrirtækið Orku Energy.

Illugi Gunnarsson mynd/Anton Brink
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins
Fréttir
Í gær

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna