Lið sem ætlaði sér að keppa á fótboltamótinu Rey Cup þurfti að draga sig úr keppni vegna COVID-19 smits hjá einstaklingi sem tengist liðinu. Þetta lið er nú komið í sóttkví. Þetta staðfesta þær Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Gunnhildur Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri Rey Cup.
Um er að ræða stúlknalið frá Stjörnunni. Einstaklingurinn sem smitaðist var ekki í sjálfu liðinu, en hafði umgengist það.
Í samtali við DV segir Gunnhildur að liðið hafi einungis mætt í herbergið sem það hafi átt að gista í á mótinu, en ekkert meira. Liðið hafði hvorki keppt leik, né gist í umræddu herbergi.
Þá tekur hún fram að mjög svipað atvik hafi átt sér stað á Símamótinu fyrr í sumar, og að málið sé unnið í samstarfi við Almannavarnir, sem og önnur mál tengd COVID-19.