fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

Kristinn býr í tjaldi eftir að hafa verið borinn út á Ólafsfirði – „Ég var gerður að skrímsli“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 22. júlí 2021 20:00

Mynd af Ólafsfirði: Sveinn Arnarsson. Að auki er skjáskot af myndbandi Mannlífs frá eldsvoða á vettvangi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður að nafni Kristinn Kristinsson, sem tengist þekktu eldsvoðamáli á Ólafsfirði í vetur og atviki er heimatilbúin sprengja var sprengd í Ólafsfjarðargöngum, hafði samband við DV í morgun. Kristinn hefur ekki verið nafngreindur í fréttum DV um málið en hann æskti þess að koma fram í frétt undir nafni þess efnis að hann hafi verið borinn út úr íbúð sem hann bjó í á Ólafsfirði og búi núna í tjaldi ýmist í garði móður sinnar eða systur sinnar því félagsmálayfirvöldum í Fjallabyggð hefur ekki tekist að útvega honum annan samastað.

Aðfaranótt 18. janúar síðastliðins varð eldsvoði í kjallaraíbúð húss við Kirkjuveg á Ólafsfirði. Lögregla hefur rannsakað þann bruna sem íkveikju. Kristinn leigði litla íbúð á efri hæði hússins. Taldi Kristinn að íkveikjunni hefði verið beint að sér og það hefði verið gerð tilraun til að brenna hann inni. Kristinn var sakaður um að láta mjög ófriðlega á vettvangi og trufla störf slökkviliðsins. Myndband sem var í dreifingu í vetur sýndi hann rífast við lögreglumann sem reyndi að róa hann niður og fá hann til að vera ekki í vegi fyrir slökkviliðsmönnum.

Þann 9. mars síðastliðinn birtist frétt á dv.is þess efnis að eigandi íbúðarinnar sem Kristinn bjó í væri að reyna að losna við hann út úr íbúðinni. Taldi hann húsnæðið óíbúðarhæft og og hætta væri á absest-mengun eftir brunann í kjallaranum. Auk slæmrar umgengni greiddi Kristinn ekki leigu. Sveitarfélagið Fjarðabyggð, sem í eru Ólafsfjörður og Siglufjörður, hlutaðist til um leigutökuna því Kristinn var og er skjólstæðingur félagsmálayfirvalda bæjarfélagsins. Eigandi íbúðarinnar, Valgeir Hannesson, var ósáttur við aðgerðaleysi yfirvalda í málinu en hann vildi að þau hlutuðust til um að rifta leigusamningnum og koma Kristni út úr húsnæðinu. DV reyndi ítrekað að spyrjast fyrir um málið hjá félagsmálayfirvöldum Fjallabyggðar en fékk engin svör.

Sjá einnig: Losnar ekki við mann út úr ónýtu leiguhúsnæði eftir húsbruna 

Valgeir Hannesson sagði við DV í vetur:

„Síðan kom í ljós að þessi einstaklingur sem þau báðu okkur um að gera leigusamning hefur rústað fjórum íbúðum á vegum bæjarins. Ég vissi ekki að þessi maður væri kexruglaður en í 99 prósent tilvika er ekkert vesen á skjólstæðingum úr félagslega kerfinu. 

Núna er húsið hálfbrunnið og ég þarf að fara í útburðarmál gegn manninum til að koma honum út, ég þarf að vesenast í þessu sjálfur og þau vilja ekkert skipta sér af þessu. Það er líklega búið að brenna asbest á neðri hæðinni og það er komið vottorð frá heilbrigðisfulltrúa þess efnis að íbúðin sé óíbúðarhæf. Mér finnst þetta undarleg hegðun hjá bæjarfélaginu að vilja ekkert skipta sér af þessu. Mér finnst líka að allan tímann hafi þau ekki viljað hafa neitt skriflegt, ég hef sent tölvupóst eftir tölvupóst og þegar þau svara þá er það alltaf símleiðis.“

„Svo sprengdi ég helvítis göngin og eitthvað“

Kristinn segir í símtali sínu við DV:

„Það var verið að henda mér út úr íbúð þar sem reynt var að brenna mig inni. Ég var gerður að skrímsli af því ég var svo mikið fyrir löggunni. Svo sprengdi ég helvítis göngin og eitthvað. Fyrst og fremst var reynt að brenna mig inni þarna. Núna er búið að bera mig út.“

Kristinn heldur því fram að það hafi verið rangt að húsið hafi verið ónýtt og óíbúðarhæft. „Ég hætti að borga leiguna af því þau sögðu mér að húsið væri ónýtt. Svo kemur bara í ljós að það er andskotinn ekkert að húsinu,“ segir Kristinn og vill meina að þetta hafi verið niðurstaða matsmanna.

Kristinn býr í tjaldi úti í garði til skiptis fyrir utan heimili móður sinnar og heimili systur sinnar. Hann segist ekki geta búið hjá þeim. Dóttir hans  á barnsaldri búi hjá móður hans og hann geti ekki farið úr bænum ef hann ætlar að vera í návígi við dóttur sína.

„Þeir seldu allar íbúðirnar sem bærinn átti á Ólafsfirði. Þau sögðu: Við reyndum nú að hjálpa þér. Við eigum bara íbúðir á Siglufirði. En dóttir mín er hér.“

Aðspurður segir Kristinn að hann muni neyðast til að þiggja húsnæði í nágrannabænum, Siglufirði. „Ég verð að gera það. Ég nenni ekki að vera úti í vetur.“ Hann ber eigendum íbúðarinnar illa söguna, þeir hafi að tilefnislausu komið honum á götuna.

Þessi ummæli Kristins: „Svo sprengdi ég helvítis göngin og eitthvað,“ vísa til atviks sem varð í Ólafsfjarðargöngum seint í mars er þar var sprengd heimagerð sprengja. Olli sprengingin milljóna tjóni og orsakaði meðal annars ljósleysi í Ólafsfjarðargöngum. Fjórir voru handteknir vegna málsins og var Kristinn á meðal þeirra.

Sjá einnig: Vandræðaleigjandi Valgeirs á meðal þeirra sem grunaðir eru um sprengingar í Ólafsfjarðargöngum

Maðurinn borinn út eftir lögformlegum leiðum

DV hafði samband við Valgeir Hannesson, eiganda íbúðarinnar á Ólafsfirði, og segir hann að útburðurinn hafi átt sér stað í júní. „Þetta var gjörsamlega óíbúðarhæft. Það er asbest í kjallaranum, ég á eftir að fá staðfest hvort það hafi verið í íbúðinni sem brann. Ég fór bara lagalegu leiðina, fór til sýslumanns og fékk útburð. Sýslumaður og lögregla komu og hentu honum út.“

Staðfestir Valgeir að það hafi verið nokkurra mánaða ferli að fá Kristinn borinn út úr húsnæðinu með löglegum hætti. „Það tók allan þann tíma með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni fyrir mig. Fyrir utan að íbúðin er í rúst fyrir utan tryggingarhlutann,“ segir Valgeir og á þar við að hann fái tjón af völdum brunans bætt en hann ætli í mál við bæinn vegna skemmda á íbúðinni sem hann segir að Kristinn hafi valdið.

„Það eru allar hurðir ónýtar, allar innréttingar ónýtar, það er allt í klessu þarna,“ segir Valgeir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fólk að gefast upp á lífrænu flokkunarpokunum – Mölflugur á sveimi og allt á floti í eldhússkápum

Fólk að gefast upp á lífrænu flokkunarpokunum – Mölflugur á sveimi og allt á floti í eldhússkápum
Fréttir
Í gær

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus