fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Sveinn skrifar opið bréf til Ingós og hvetur hann til að endurskoða afstöðu sína – „Það er eina leiðin áfram, Ingó minn“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 15. júlí 2021 12:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sveinn Waage, ráðgjafi og leiðbeinandi hjá Háskólanum í Reykjavík og uppistandari, hefur birt opið bréf til Ingólfs Þórarinssonar tónlistarmanns, Ingós Veðurguðs. Bréfið er vinsamlegt en Sveinn hvetur Ingó til að gera upp sín mál og sýna auðmýkt. Eins og alþjóð veit hefur Ingó stefnt fimm manns vegna ummæla og fréttaflutnings um sig í kjölfar þess að um 20 nafnlausar reynslusögur um meinta ámælisverða hegðun hans í garð ungra kvenna birtust á samfélagsmiðlinum TikTok. Einnig hefur birting reynslusagnanna verið kærð til lögreglu.

Sveinn ráðleggur Ingó í vinsemd að snúa af þessari braut. Hann vill forðast að alhæfa í málinu en telur að ástæðan fyrir því hvað margir hafa viljað bakka upp Ingó í þessari umræðu sé sú að hann sé frábær tónlistarmaður og skemmtikraftur:

„Ég held aftur á móti að ein aðal ástæðan fyrir að fólk vill bakka þig upp í þessu máli, sé einfaldlega að þú ert frábær í því sem þú gerir. Ég hef orðið vitni sem veislustjóri, gestur og sitjandi í brekkunni að sem performer ertu einfaldlega meiriháttar. Hef reyndar sagt fullum fetum að þú náðir brekkusöngnum í nýjar hæðir með því að sameina 3-4 kynslóðir í söng, allt frá „Maríu Maríu“ yfir í nýjasta nýtt. Þú settir standard sem verður ekki auðvelt fylgja eftir. Sveitungi þinn á verk fyrir höndum.“

Sveinn hefur samúð með Ingó sem hefur þurft að þola illt umtal, mannorðshnekki og tekjuhrun. En hann bendir á að þegar svona margir stígi fram með ásakanir hljóti að vera eitthvað til í þeim:

„En að málinu aftur. Það er ekki svart og hvítt, allir sammála þar. Getum við verið sammála um það líka að þegar plús 30 aðilar segja frá hegðun eins aðila þá sé eitthvað í gangi? Þegar bætast við einn fleiri vitni, undir nafni, þá sé það nokkuð ljóst að eitthvað er til í þessum ásökunum. Að minnsta kosti eitthvað?“

Sveinn bendir á að þolendur vilji viðurkenningu og ræðir síðan um skelfilegar afleiðingar kynferðisofbeldis, nokkuð sem hann hefur mátt reyna á eigin skinni:

„Nú ætla ég að reyna að passa alhæfingar og er alls ekki að tala fyrir hönd annarra. Nú er ég að taka saman, það sem ég hef kynnt mér og upplifað sjálfur. Þolendur vilja viðurkenningu. Afsökunarbeðni og refsing er ekki endilega efst á blaði. Enginn getur svo dæmt um það, aðrir en við sjálf, hvernig við upplifum okkur sem þolendur. Við erum misjöfn. Og bara við vitum hvernig okkur líður, hvar okkur finnur til. Enginn annar. Það sem kann að vera einhver „leiðindi á djamminu“ fyrir e-rn, getur annar upplifað sem árás og ofbeldi. Í sama atburðinum. Ég var í Lögreglunni í VE í tvö sumur, rétt liðlega tvítugur, og tala stundum um þann tíma sem sumrin sem ég fullorðnaðist, ekki endilega til góðs. Ég ætla að leifa mér að halda því fram að heimsins bestu leikhæfileikar dugi ekki til að fela tilfinningar í slysum og áföllum. Að upplifa konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og síðan tapað málinu og/eða ekki kært vegna þess að þeim var ekki trúað var sértaklega erfitt að kyngja.

Svo þetta með vakningu eins og Metoo. Í þeirri fyrstu upplifði ég sjálfur og náði loks að skila skömminni vegna atburðsr sem gerðist í Þórsmörk þegar ég var 16. ára. Bráðþroska barn með „allt á hreinu“ að ég hélt. Ég var króaður af inn í tjaldi, náði að sparka mér leið út og afgreiddi þetta á methraða sem „djös rugl maður“og drakk meira. Horfði samt ekki framan í viðkomandi aftur. Aðeins ég veit hvernig mér leið. Kom mér í hug að kæra, nei. Kom mér í hug að segja öðrum í hópnum, nei. Verða að athlægi? Nei takk. Var þessu troðið eins djúft og hægt er í óminnis- og afneitunar-kjallarann? Ó,já! Vil ég refsa viðkomandi? Nei. Hata ég viðkomandi? Nei. Væri ég til í að þessi manneskja viðurkenndi hvað hún gerði og reyndi að gera? Hugsanlega já, en ég veit samt ekki hvort viðkomandi man eða áttar sig. Ég man. Langar mig í Þórsmörk? Nei.“

Sveinn segir að augljóst sé að Ingó hafi sært fólk en nú sé mikilvægt að leita í samtalið og gera málin upp í auðmýkt:

„Hvað er ég að reyna að segja Ingó? Jú. Þegar fjallið er orðið ókleift er óhætt að hætta að klifra. Þú ert ekki maðurinn sem getur dæmt um hvort og/eða hvernig þú braust á þessum stelpum, eða ekki. Það er ekki þitt, það er þeirra. Þú hefur augljóslega sært fólk og það stendur, hvað þú gerir núna skiptir öllu máli. Hættum núna og tölum saman. Leitum inn á við, og gerum þetta allt upp af auðmýkt og vinnum í okkar málum. Þú ert ungur maður með fullt af hæfileikum og framtíðin er þín ef þú tekur réttu skrefin núna. Það er eina leiðin áfram Ingó minn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum