Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Gísla Má Gíslasyni, prófessor emeritus í vatnalíffræði við Háskóla Íslands, að lúsmý sé nokkuð algengt í sveitum á Suðurlandi og í Fljótshlíð. Einnig sé það mjög algengt á Vesturlandi, til dæmis í Kjósinni, Hvalfjarðarsveit og í Borgarfirði og sé nú komið enn víðar en það. „Sjálfur var ég bitinn fyrir ári í Miðfirði í Húnavatnssýslu og ég veit að fólk hefur verið bitið í Eyjafirði og í Vaglaskógi í Fnjóskadal. Svo var ég að frétta af fólki sem var illa bitið í Helgafellssveit,“ er haft eftir honum.
Haft er eftir Gísla að hann telji óhætt að ganga út frá því að lúsmý sé nú víða inn til landsins á Suðurlandi vestan Markarfljóts, á Vesturlandi og á Norðurlandi allt austur í Fnjóskadal.
Ekki hafa borist fregnir af lúsmýi utarlega á Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Austfjörðum, Suðausturlandi og í Þingeyjarsýslum nema í Fnjóskadal.