Undanfarin ár hafa íslenskar stúlkur verið bólusettar gegn hpv-veirunni sem getur valdið leghálskrabbameini sem og krabbameini í skapabörmum, leggöngum, endaþarmi og hálsi. Til eru nokkrar tegundir hpv og hér á Íslandi hefur verið bólusett með efninu Ceravarix veitir vörn gegn hpv-veirum af gerð 16 og 18.
Í opnu bréf til Ölmu D. Möller Landlæknis og embættis hennar í Morgunblaði dagsins segir Erla Björk Þorgeirsdóttir, verkfræðingur, að á þessum tíma hafi verið til betra lyf, Gardasil, sem veitti vörn gegn áðurnefndum veirutegundum en að auki vörn gegn veirum af gerð 6 og 11. Síðan hafi tíminn liðið og nú sé kominn betrumbætt útgáfa, Gardasil 9, sem veiti vörn gegn alls níu tegundum af hpv-veirum auk þess sem lyfið ræðst gegn kynfæravörtum.
„Af hverju var útboðinu þannig háttað að hægt var að taka tilboði upp á lakara lyf en það sem best gerðist á þeim tíma? Var þá þegar búið að ákveða að íslenskar konur væru ekki meira virði en svo að annars flokks lyf væru nógu góð?“ spyr Erla Björk Landlækni.
Þá bendir hún á að með því að velja lyf sem ekki nái öllum hpv-veirunum haldi áfram að vera þörf fyrir skimanir við leghálskrabbameini og hpv-veirunni, speglanir, keiluskurði, leghálsnám og legnám.
„Þrátt fyrir öll þessi inngrip deyja nokkrar konur á ári úr leghálskrabbameini sem er algerlega hægt að koma í veg fyrir. Til þess að útrýma þessum vágesti úr okkar samfélagi þarf að bólusetja allt ungt fólk (bæði kyn) með Gardasil 9. Karlmenn deyja vissulega ekki úr leghálskrabba en þeir eru smitberar. Á meðan þeir eru ekki bólusettir hringsólar þessi veira í samfélaginu,“ segir Erla Björk.
Þá segir hún að allt klúðrið við leghálssýnarannsóknir hérlendis bendi til þess að mikil kvenfyrirlitning einkenni málaflokkinn. „Hvenær ætlar landlæknir að tryggja íslenskum ungmennum bólusetningu gegn hpv og spara konum þjáningar og ótímabær dauðsföll? Er það rétt að aðeins sýnum frá kvenkyns læknum hafi verið fleygt?“