Vísir.is skýrir frá þessu og segist hafa heimildir fyrir að þeir sem um ræðir séu: Edda Falak áhrifavaldur, Erla Dóra Magnúsdóttir blaðamaður hjá DV, Kristlín Dís Ingilínardóttir blaðamaður hjá Fréttablaðinu, Ólöf Tara Harðardóttir sem er meðal þeirra sem eru í forsvari fyrir baráttuhópinn Öfga og Sindri Þór Sigríðarson Hilmarsson, viðskiptafræðingur, markaðsstjóri, baráttumaður og fyrrum framkvæmdastjóri Pírata.
Í gærkvöldi lýsti Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull, því yfir að hann muni greiða lögfræðikostnað þeirra sem fá kröfubréf frá Ingó.
Eftir að umræðan um mál tengd Ingó fór á mikið flug fyrir nokkru sagði Ingó að hann myndi leita réttar síns gegn þeim sem hafa tjáð sig óvarlega um hann á Internetinu.
Lögmaður hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, sagði í samtali við RÚV í gær að sérstök kæra verði lögð fram hjá lögreglunni vegna baráttuhópsins Öfga sem birti nafnlausar frásagnir 32 kvenna af meintu ofbeldi Ingós í þeirra garð. Beinist sú kæra ekki að forsvarsmönnum Öfga heldur að þeim sem standa á bak við nafnlausu sögurnar.