Ný ferðaskrifstofa sem gengur undir nafninu Morii birti á dögunum myndband þar sem stofnendur ferðaskrifstofunnar sjást leggja bifreið sinni utanvegar við gíginn Rauðuskálar. Ljóst er að stofnendur skrifstofunnar, þeir Terry Zhang og Blakelock Brown, hafi stundað utanvegaakstur á svæðinu. Stundin fjallaði um málið.
Myndbandið sem um ræðir var upphaflega birt á samfélagsmiðlunum TikTok og Twitter. Ásamt þeim Terry og Blakelock má sjá eina aðra manneskju í myndbandinu. „Við fundum óþekktan stað á Íslandi,“ segir í enskum texta í myndbandinu.
Utanvegaakstur á svæðinu hefur verið tíður undanfarið. Stundin ræddi við Daníel Frey Jónsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, en hann sagði að það væri ljóst að stofnendur ferðaskrifstofunnar hafi stundað utanvegaakstur. Þá sagði Daníel að Umhverfisstofnun hafi borist ábendingar vegna myndbandsins. Það gerist reglulega að stofnunin fái ábendingar um utanvegaakstur og myndbönd með þeim.
„Þetta er dálítið algengt í nágrenni Heklu. Við höfum áður heyrt af bílum þarna. Það er merktur slóði upp undir Rauðaskál, en hann fer ekki upp á gígbarminn. Bíllinn er þarna kominn á ystu brún á gígskálinni,“ sagði Daníel í samtali við Stundina um málið.
Ferðaskrifstofan Morii hefur ekki fengið leyfi til að starfa sem ferðaskrifstofa samkvæmt upplýsingum sem Stundin fékk frá Ferðamálastofu. Morii býður til að mynda upp á pakkaferðir með innifaldri gistingu hér á landi en til þess að gera það þurfa aðilar að hafa leyfi fyrir því.