Lögreglumaður sem starfar við vöktun við forsetabústaðinn á Bessastöðum er sakaður um einelti og misnotkun á myndavélaeftirlitskerfi á svæðinu. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV hefur starfsfólk á Bessastöðum kvartað undan framferði hans við yfirmann hans.
Á Bessastöðum er starfrækt nokkurs konar útibú frá Lögreglustöð 2 í Hafnarfirði, en þar vinna nokkrir lögreglumenn á vöktum við að fylgjast með mögulega óviðkomandi umferð um svæðið. Umræddur lögreglumaður er sagður fara langt út fyrir verksvið sitt með því að skoða upptökur af efni, spóla fram og aftur í þeim og fylgjast þannig með ferðum tiltekinna starfsmanna. Hann er sakaður um að veita upplýsingar sem hann aflar með þessum hætti um ferðir tiltekinna starfsmanna til annarra starfsmanna á svæðinu og til yfirmanna sinna. Hann er ennfremur sakaður um að taka myndskeið á síma sinn upp úr myndefninu og sýna óviðkomandi.
Því er einnig haldið fram að lögreglumaðurinn hafi skrifað skýrslur um tvo starfsmenn á Bessastöðum, byggt á þessari skoðun á myndefni, og sent til fráfarandi forsetaritara.
DV hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að kvartað hafi verið bæði munnlega og skriflega yfir framferði lögreglumannsins til yfirmanns hans, Skúla Jónssonar, yfirlögregluþjóns og stöðvarstjóra á Lögreglustöð 2 í Hafnarfirði. Er DV bar málið undir Skúla sagðist hann vilja fá skriflega fyrirspurn sem hann myndi svara. Var það á föstudaginn og var fyrirspurnin send þá. Hefur henni ekki verið svarað en greint verður frá svarinu er það berst.
DV hafði samband við lögregluþjóninn sem um ræðir og vísar hann á forsetaritara og yfirmann sinn, þ.e. yfirlögregluþjóninn í Hafnarfirði. Segist hann ekki tjá sig um mál sem tengjast störfum hans á Bessastöðum.
Skrifleg fyrirspurn um málið hefur verið send til forsetaritara, Sifjar Gunnarsdóttur.