Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. „Þessi smit sem eru að greinast bæði hér innanlands og á landamærunum eru ekki að dreifa úr sér, sem segir okkur að það er komið nokkuð gott samfélagslegt ónæmi,“ er haft eftir Þórólfi.
Hann segir mikilvægt að hafa í huga að faraldurinn sé ekki búinn og að ekki megi sofna á verðinum. „Fólk sem til dæmis er ekki fullbólusett þarf að gæta vel að sér að smitast ekki og ég tala nú ekki um þá sem eru óbólusettir,“ og benti á hversu mikilvægt það sé að allir hugi áfram að einstaklingsbundnum sóttvörnum. „Þá þurfum við að huga vel að okkur varðandi ný afbrigði, faraldurinn er í mikilli útbreiðslu í mörgum löndum, til dæmis í Bretlandi þar sem hann er í mikilli aukningu þannig að þetta er ekki búið þó að þetta gangi vel hjá okkur,“ sagði hann einnig.
Í dag verða um 10 þúsund bólusettir með bóluefni frá Janssen. Á morgun fá um 18 þúsund manns bóluefni frá Pfizer, þar af fá 8.500 manns fyrri skammtinn. Til stóð að bólusetja um 5 þúsund manns með bóluefni frá AstraZeneca í vikunni en þar er um seinni skammtinn að ræða fyrir viðkomandi. Það dregst þó fram yfir helgi þar sem afhending á efninu tefst.