Haukur Harðarson hefur verið ráðinn sem sérfræðingur í miðlun og þróun hjá Samkeppniseftirlitinu. Flestir landsmenn þekkja Hauk sem hefur verið íþróttafréttamaður á RUV síðustu ár.
Samkeppniseftirlitið auglýsti stöðuna í febrúar. Þar kom fram að stofnunin leitaði að metnaðarfullum og drífandi einstaklingi í nýtt starf og að viðkomandi verði hluti af stoðteymi Samkeppniseftirlitsins.
Starfið felur í sér yfirsýn, ábyrgð og umsjón með kynningar- og vefmálum, ásamt því að fylgja eftir innleiðingu stafrænna lausna og þróunarverkefna.
Menntunar- og hæfniskröfur nefndar í auglýsingunni voru til að mynda háskólamenntun sem nýtist í starfi, gott vald á íslensku í ræðu og riti, og reynsla og þekking á kynningarmálum – reynsla af almannatengslum æskileg.