Þegar gripið var til sóttvarnaaðgerða vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar gagnrýndu samtökin þær og sögðust telja að veitingastaðir bæru skarðan hlut frá borði miðað við ýmsa aðra starfsemi á borð við leikhús og verslanir. Sögðu samtökin að sóttvarnaaðgerðirnar hefðu kippt stoðunum undan rekstrargrundvelli veitingastaða.
En nú er staðan betri að sögn Hrefnu. Nú mega allt að 300 manns vera inni á veitingastað í einu og sagði hún að langflestir staðirnir séu undir því marki. Þá komi tímamörk ekki að sök hjá veitingastöðum því fæstir séu þeir opnir lengur en til klukkan eitt. En lokunartíminn kemur niður á börum og skemmtistöðum. „Þetta tekur tíma en er allt á áætlun. Það virðist styttast í að öllum takmörkunum verði aflétt,“ er haft eftir henni.
Hún sagði að fólk væri farið að sækja veitingastaði enda sé búið að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar og lítið um smit. Hún sagði að þetta væri komið í svipaðan farveg og fyrir faraldurinn.