Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að rúmlega 170 íbúar í hverfinu hafi skrifað undir undirskriftalista þar sem betri samgangna er krafist. Snýst krafa íbúanna bæði um strætisvagnaferðir og göngu- og hjólastíga inn og út úr hverfinu.
Dæmi eru sögð um að íbúar hafi í hyggju að flytja úr hverfinu vegna slæmra samgangna. „Eina leiðin til að komast inn í Garðabæ er yfir þessi gatnamót hjá Kauptúni. Það eru engin undirgöng undir Reykjanesbrautina nema langt í burtu, hjá Vífilsstöðum,“ er haft eftir Heiðrúnu Sigurðardóttur, sem stóð að undirskriftasöfnuninni.
Nú búa rúmlega tvö þúsund manns í hverfinu en þar munu tæplega fimm þúsund manns búa þegar það verður fullbyggt. Fyrir tveimur árum tók Urriðaholtsskóli til starfa og þá var kennt í 1. til 4. bekk. Einum bekk er bætt við á ári og því var kennt í 1. til 6. bekk í vetur. Flestir eldri nemendur eru í Garðaskóla en sumir eru í Sjálandsskóla. Þurfa þeir að fara langa leið og yfir hættuleg gatnamót á leið sinni í skóla og frístundastarf en ekkert slíkt er í boði í Urriðaholti eins og er.
Eina leiðin er yfir fyrrgreind gatnamót og er haft eftir Heiðrúnu að fólk aki mjög hratt þar og í Hraununum hinum megin við þau. Gangandi vegfarandi á áttræðisaldri varð fyrir bíl þarna í febrúar og lést.
Strætisvagn ekur aðeins í hverfið á háannatímum á morgnana og síðdegis og á hálftíma fresti. Þess á milli eru ferðir á klukkustundarfresti en bara ef búið er að panta með hálftíma fyrirvara. Ekur sá vagn í Ásgarð. Íbúarnir vilja fá reglulegri og betri ferðir strætisvagna inn í hverfið.