Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að grunur leiki á að tekjur hafi ekki verið gefnar upp til skatts og geta fjárhæðirnar hlaupið á tugum milljóna króna.
Á síðasta ári fékk skattrannsóknarstjóri upplýsingar frá Airbnb á Írlandi um greiðslur til íslenskra aðila á árunum 2015 til 2018 en þær námu 25,1 milljarði króna.
Unnið hefur verið að úrvinnslu þessara gagna í tæpt ár en nú er rannsóknin að taka á sig mynd. „Það eru nokkur brot þarna sem eru alvarleg og stórfelld. Þau verða hjá okkur í rannsókn og geta mögulega endað fyrir dómstólum,“ er haft eftir Theodóru Emilsdóttur, settum skattrannsóknarstjóra.
Ekki liggur fyrir hversu mörg mál verða tekin til rannsóknar en þau verða nokkur að sögn Theodóru. Upplýsingar um aðra aðila verða sendar til skatteftirlits og er hugsanlegt að þeim málum ljúki með endurákvörðun skatta ef útleigutekjur reynast vantaldar.
„Hvað alvarlegri málin snertir kemur auk endurákvörðunar til beitingar sektarviðurlaga ef grunur reynist réttur. Hluta málanna gæti hvað það varðar lokið með sekt eftir rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra,“ sagði Theodóra.
Alvarlegustu málin fara til rannsóknar hjá héraðssaksóknara og síðan fyrir dómstóla og lýkur þá hugsanlega með sekt og fangelsisrefsingu sagði hún einnig.