Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að bæði verði endurbólusett í vikunni og bólusett eftir handahófsröðun. „Við óskum eftir því að þeir, sem koma og eiga strikamerki fyrir þann dag sem þeir mæta, komi á tilsettum tíma, þeir sem ekki mættu þann dag sem þeir voru boðaðir geta mætt eftir kl. 14 til þess að ekki verði of langar biðraðir,“ er haft eftir Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Hún ítrekaði að fólk sem á erfitt með gang láti vita af sér ef biðraðir myndast þannig að hægt sé að reyna að kippa því fram fyrir.
Hvað varðar yfirlið í tengslum við bólusetningu sagði hún að töluvert meira sé um að það gerist hjá yngri kynslóðinni en þeirri eldri. Hún hvatti fólk einnig til að borða og drekka áður en það mætir í bólusetningu.