Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur – Sigga Dögg – er æf yfir viðbrögðum feðginanna Péturs Gauts og Kristínar Pétursdóttur við ásökunum hennar um að þau hafi beitt systur hennar ofbeldi.
DV greindi frá málinu fyrr í dag og ræddi við Siggu Dögg, Pétur Gaut og Kristínu. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV hefur Pétur Gautur verið kærður til lögreglu vegna málsins en alls er óvíst hvað kemur út úr rannsókn lögreglu á málinu.
Um er að ræða atvik sem tengist tíðum kvörtunum yfir samkvæmishávaða frá vinnustofu Péturs Gauts í miðbænum, þar sem þau feðgin voru í samkvæmi ásamt fleira fólki, fyrir allmörgum vikum, líklega meira en tveimur mánuðum. Þau viðurkenna bæði að hafa spilað háa tónlist og það hafi verið glaumur í vinnustofunni. Þau segja slíkt ekki óeðlilegt þegar maður býr í miðbænum. Þau þvertaka fyrir að hafa beitt ofbeldi en segja að systir Siggu Daggar hafi verið vantstillt og tryllt í framkomu er hún knúði dyra hjá þeim og kvartaði yfir hávaða.
Kristín sagði í viðtali við DV fyrr í dag að henni þyki sérkennilegt að kæra í málinu sé komin inn á borð lögreglu þar sem engin skýrsla hafi verið tekin af henni né öðrum gestum í samkvæminu heldur eingöngu spjallað lauslega við þau og síðan hafi lögregla yfirgefið staðinn.
Siggu Dögg er mikið niðri fyrir eftir frétt DV um málið í dag, þ.e. vegna þeirra viðbragða sem Pétur Gautur og Kristín sýna við ásökunum hennar í viðtölum við DV. Sigga Dögg fer yfir málið í nokkrum myndböndum á Instagram-síðu sinni. Þar segir hún að þau feðgin hafi svo sannarlega beitt systur hennar ofbeldi og það hafi verið vitni að því. Hún fordæmir þau fyrir að afneita þessu öllu.
Það kemur jafnframt fram í myndböndunum að atvikið átti sér stað á þriðjudagsnóttu og systir Siggu Daggar þurfti að mæta til vinnu daginn eftir.
Hér að neðan er endurritun af meirihluta ummæla Siggu Daggar í myndböndunum. Hún spyr hverjum við ætlum að trúa, þeim sem beita ofbeldinu eða þeim sem verða fyrir því:
„Ákveðin atvik áttu sér stað, það voru vitni að þeim, ég er ekki eitt af þeim vitnum, ég kem að málinu og sæki systur mína sem var í miklu uppnámi. Ég velti fyrir mér þegar fólk afneitar öllu og gengst ekki við neinu, hvað heldur það að gerist? Þegar það sendir svo beint á þá sem fyrir árásinni verða og krefst þess að fá að tala við viðkomandi, hvað heldur það að gerist? Það er engin iðrun, það er engin afsökunarbeiðni, þau eru búin að fá margar vikur til þess, gerðu það aldrei. Hvert á þetta að fara? Ég skil ekki neitt.
Ég bara kom, sótti systur mína, sem var miður sín, talaði við lögregluna, sá lögregluna tala við þau, spurði systur mína hvað gerðist því hún er jú heilbrigðisstarfsmaður og hún var edrú og hún var sofandi og þetta var þriðjudagsnótt og það var sparkað í hana, það var reynt að sparka niður hurðinni heima hjá henni, hún þurfti að flýja, það var öskrað á hana öllum ókvæðisorðum og henni var virkilega ógnað og hún þarf að búa á þessum sama stað þar sem ofbeldið átti sér stað, undir því að mæta þessu fólki mjög reglulega. Svo kannast þau ekki við neitt en það eru vitni að þessu. Vitni að þessu öllu! Hvað í andskotanum erum við að tala um?
Nú langar mig að spyrja: Við erum í þessari öldu hérna. Ætlum við að trúa þeim sem beita ofbeldinu eða þeim sem verða fyrir ofbeldinu. Hvað raunverulega er að gerast hérna? Þannig að fólk sem er sauðdrukkið um miðja nótt í bara „smá gleðskap í miðbænum“ og beitir annað fólk ofbeldi sem er edrú að reyna að sofa því það þarf að mæta til fokking vinnu daginn eftir, það fólk er beitt ofbeldi, þorir varla segja frá því af því þetta er þekkt fólk en segir svo frá því. Og þekkta fólkið sem hefur platform, hefur áhrif, hefur rödd og hefur tækifæri, neitar öllu. Má ég spyrja: Það er árið fokking 2021 á hvaða fokking rödd ætlið þið að hlusta? Mér er svo gjörsamlega misboðið. Þetta er ekki í boði.“