fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Dóttir Guðbjörns getur ekki tekið þátt í nýju metoo-bylgjunni vegna þess að hún er dáin – „Allt rifjast upp fyrir mér“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 8. maí 2021 08:00

Guðbjörn Guðbjörnsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vikan hefur verið erfið fyrir Guðbjörn Guðbjörnsson, yfirtollvörð og óperusöngvara, en reynslusögur kvenna sem stigið hafa fram og greint frá kynferðisofbeldi hafa vakið upp óbærilega sárar minningar um dóttur hans, Sólveigu Elísabetu Segler Guðbjörnsdóttur, sem tók eigið líf nokkrum árum eftir að henni var nauðgað.

Elísabetu var nauðgað er hún var 16 ára en nauðgari hennar var sýknaður fyrir dómi. Guðbjörn fór yfir málið í viðtali við dv.is árið 2017, þar sem hann sagði að meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu væri böl sem rekja mætti til ítaka Sjálfstæðisflokksins. Kerfið sagði hann vera dofið og gegnsýrt af karlrembu:

„Sjálfstæðisflokkurinn er ótrúlega áhrifamikill í kerfinu. Hann á eiginlega lögregluna, dómstólana og 60-70% allra forstöðumanna stofnana. Þetta kerfi allt saman – ég vil ekki segja að það sé spillt – heldur að það sé dofið og gegnsýrt af karlrembu. Það er líka mikil samtrygging í því. Ég veit fyrir víst og af eigin reynslu að það er erfitt fyrir þá sem eru í kerfinu að koma fram með gagnrýni hvað þessa karlrembu-afstöðu Sjálfstæðisflokksins varðar, því kerfið hefnir sín á þeim og hótar þeim öllu illu. Hef meira sjálfur orðið fyrir slíku einelti og ofsóknum fyrir skoðanir mínar og ummæli. Sjálfstæðisflokkurinn eins og hann er í dag er í raun meinsemd í samfélaginu!“

Saga sem verður að segja aftur

Þrautaganga dóttur Guðbjörns er saga sem verður að segja oft til að vekja vitund um hana í samfélaginu en það tekur gífurlega mikið á Guðbjörn að segja þessa sögu. Engu að síður steig hann fram með frásögn um málið á Facebook-síðu sinni á föstudagskvöld sem hann veitti DV leyfi til að endurbirta. Þar segir hann:

„Dóttir mín Sólveig Elísabet Segler Guðbjörnsdóttir getur ekki tekið þátt í þessari nýju metoo-bylgju, þrátt fyrir að hafa verið nauðgað. Elísabet er nefnilega dáin. Ég pabbi hennar þarf að minna á hvað kom fyrir hana. Elísabet var gáfuð, viðkvæm, skemmtileg, falleg og hugrökk og ákvað að kæra sína nauðgun til lögreglu. Lögreglan vann sína vinnu af nákvæmni og mikilli tillitsemi. Það sama gerði Ríkissaksóknari og sama má segja um réttargæslukonu hennar Helgu Völu Helgadóttur þingkonu, lögfræðing og leikara. Allt þetta fólk fær mikið hrós fyrir þeirra mikilvægu vinnu, sem var unnin af virðingu, kostgæfni og í kærleika.“

Guðbjörn segir að nauðgari dóttur hennar hafi verið huggulegur ungur strákur af fínu fólki. Héraðsdómur hafi trúað nauðgaranum en ekki dóttur hans:

„Nauðgarinn var huggulegur ungur strákur sem spilaði meira að segja fótbolta og kom úr „high society“ í Reykjavík. Faðirinn er „akademíker“ og móðirin var áberandi pólitíkus og listaspíra í borginni úr aðal „hipp & kúl“ stjórnamálaflokknum á þeim tíma. Á yfirborðinu var þetta allt slétt og fellt. En allt kom fyrir ekki og Héraðsdómur Reykjavíkur trúði ekki dóttur minni heldur nauðgaranum. Að sögn „stóð dóttir mín sig víst ekki nógu vel“ þegar hún kom fyrir dómarana, enda á þessum tíma orðin skugginn af sjálfri sér vegna þessa máls. Hún jafnaði sig aldrei á nauðguninni og enn síður af sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands.“

Fékk ekki hjálp í heilbrigðiskerfinu og tók líf sitt

Samkvæmt frásögn Guðbjörns brást ekki bara réttarkerfið dóttur hans heldur einnig heilbrigðiskerfið. Hún fékk enga úrlausn sinna mála og sá bara eina leið til að binda enda á þjáningarnar:

„En saga Elísabetar endaði ekki hér. Elísabet reyndi að leita sér hjálpar hjá geðdeild Landspítalans. Þar fann hún enga hjálp. Hún var lögð nokkrum sinnum á bráðamóttöku LSB í einhverskonar geðrofi og vandræðum eða eftir sjálfsmorðstilraunir og þar var ekki neina hjálp að finna. Elísabet var að mati geðheilbrigðiskerfisins ekki þess virði að hjálpa eða bjarga, enda að þeirra mati ekki í „viðkvæmum hóp“ eða með frægt podcast. Við foreldrarnir og systur hennar reyndum að fá hjálp hjá kerfinu en þar var enga hjálp að fá. Þrátt fyrir að við segðum LSH margsinnis að hún væri í lífshættu var ekki hlustað á okkur. Elísabet sjálf sagði a.m.k. fjórum sinnum á LSH að hún ætlaði að fremja sjálfsmorð en enginn trúði henni. Þetta fór inn um annað eyrað og út um hitt.

Nóttina sem henni tókst að binda enda á þjáningar sínum var henni hent út af bráðamóttöku LSH snemma morguns og út á bílaplanið. Hún komst heim við illan leik og um tveimur klukkustundum síðar var hún farin frá okkur. Í haust eru tvö ár síðan að ég sendi inn „kvörtun“ til Landlæknis vegna „læknismeðferðar“ hennar eða réttara sagt „skorts á henni“. Hjá Landlækni virðist fólk loksins hafa tekið mig alvarlega og embættið hóf rannsókn. Fyrstu niðurstöður eru að mistök hafi verið gerð en ég bíð enn lokaniðustöðu Landlæknis. Ég er ekki bjartsýnn á að hún verði góð og það er af því að ég er mikill raunsæismaður. Það trúir nefnilega í raun enginn fórnarlömbum kynferðisofbeldis. Fólki finnst óþægilegt að ræða nauðganir eða geðrænan vanda fólks, ekki síst ef þetta fer saman.“

Upprifjunin er yfirþyrmandi

Það tekur mikið á Guðbjörn að rifja upp þessa reynslu og vikan hefur verið erfið. Lokaorð pistils hans eru eftirfarandi:

„Mér finnst líka óþægilegt, erfitt og sársaukafullt að ræða þessa hluti. Ég er afskaplega þreyttur eftir þessa viku af því að allt rifjast upp fyrir mér. Þannig líður tugþúsundum fórnarlamba kynferðisofbeldis og aðstandendum þeirra. Ég var einmitt rétt í þessu að vakna eftir 3 klukkustunda svefn. En ég skulda Elísabetu dóttur minni að hennar saga verði sögð aftur og aftur þar til að einhver trúir henni. Og ég mun halda áfram að segja hennar sögu þar til að ég kveð þennan heim – vonandi í hárri elli – eða allavega þar til dómskerfið og heilbrigðiskerfið biðja hana og fjölskyldu hennar fyrirgefningar á framkomu sinni.“

Í stuttu samtali við DV segir Guðbjörn að honum virðist ástandið í þessum málaflokki ekkert vera að lagast. Þess vegna sé nauðsynlegt að segja sögu dóttur hans þó að það sé þjáningarfullt.

 

https://www.facebook.com/gudbjorn.gudbjornsson/posts/10219493863359954

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum