Morgunblaðið skýrir frá þessu. Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri IÐUNNAR, sagði að fyrirtæki um allt land hafi lýst yfir áhuga á að ráða námsmenn til starfa í sumar í tengslum við átaksverkefnið. Rúmlega 140 fyrirtæki hafa nú þegar svarað að hennar sögn, flest á höfuðborgarsvæðinu.
Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Rafmenntar, sagði að 24 fyrirtæki hafi lýst yfir áhuga á að bæta við starfsmönnum til viðbótar við þá sem fyrirhugað var að ráða í sumar. Hann sagði að rafiðnaðarmenn fari þó gætilega vegna óvissu í atvinnulífinu.
Á fyrsta ársfjórðungi voru 70,7% af mannfjölda starfandi á atvinnumarkaði samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Þetta er sögulega lágt hlutfall.
Morgunblaðið hefur eftir Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, að hún telji að hlutfallið muni hækka hratt í sumar samhliða því sem áhrif heimsfaraldursins dvína.