Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að þeir sem eru eftir á forgangslistunum sé fólk sem hafi áður verið boðað í bólusetningu en hafi ekki komist eða hafnað því, þar á meðal vegna þess hvaða bóluefni stóð því til boða.
Á morgun verða 7.700 skammtar af Pfeizer gefnir. Á miðvikudaginn 5.000 skammtar af Moderna og á fimmtudaginn um 600 skammtar af Janssen. Þar sem aðeins þarf einn skammt af bóluefninu frá Janssen hafa áhafnir skipa og flugvéla verið í forgangi með það.
Um leið og ljóst er hversu margir af forgangslistunum skila sér í bólusetningu verður byrjað að boða fólk handahófskennt. Fyrirkomulagið er einfalt að sögn Ragnheiðar. Árgöngunum verður skipt í tvennt eftir kyni. Miðar, með árgangi og kyni, settir í tvær krúsir, karlakrús og kvennakrús, og síðan dregið til skiptis til að halda kynjahlutfallinu jöfnu.
Boðun fer síðan fram með hefðbundnum hætti með SMS-skilaboðum.
Ragnheiður sagðist reikna með að árgangur 1975 verði elsti árgangurinn í þessari handahófskenndu boðun og verður því 31 árgangur í pottinum.