Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures, tók í sama streng en Arctic Adventures er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. „Það er ljóst að ákvörðunin um að taka á móti bólusettum Bandaríkjamönnum hefur haft mjög jákvæð áhrif. Um leið sáum við bókanir byrja að tikka inn. Þeim fjölgar jafnt og þétt þannig að hver vika er betri en sú fyrri,“ er haft eftir honum.
Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Icelandair, sagði að hlutirnir hafi gerst mjög hratt þegar Bandaríkjamenn gátu loksins farið að ferðast.
Það kemur ferðaþjónustunni vel að mörgu leyti að hlutfall Bandaríkjamanna sé hátt því þeir virðast dvelja lengur og kaupa meiri afþreyingu en tíðkast sagði Jóhannes Þór. „Þetta virðist vera fólk sem hefur ekki varið peningum í utanlandsferðir í töluverðan tíma og ekki orðið fyrir fjárhagslegu áfalli,“ er einnig haft eftir honum.
En þessi einsleitni ferðamanna hefur þær afleiðingar að sum ferðaþjónustufyrirtæki hafa ekki haft mikil tækifæri til tekjuöflunar til þessa. „Þetta skiptist misjafnt eftir því hvort fyrirtæki þjónusta hópa eða einstaklinga. Eins og stendur eru þetta ferðamenn sem ferðast á eigin vegum. Þeir ferðast með bílaleigubílum frekar en rútum,“ er haft eftir Jóhannesi Þór.