fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Kannast ekki við þöggunarsamninga vegna nauðgana þrátt fyrir háværan orðróm

Erla Hlynsdóttir
Miðvikudaginn 19. maí 2021 15:30

Mynd/Pixabay

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki er hægt að semja sig frá refsingu vegna nauðgunar með því að láta brotaþola skrifa undir fyrirfram að hann sé samþykkur kynmökum. Kynfrelsi er lykilatriði  þegar kemur að því að meta samþykki og við rannsókn nauðgunarmála skoðar lögregla hvort samþykki hafi verið fengi með  ólögmætum hætti. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kannast ekki við að á borð hennar hafi komið mál þar sem fólk hefur verið látið skrifa undir samþykki fyrir kynmökum en síðan verið nauðgað.

Ný #metoo-bylgja ríður nú yfir samfélagið þar sem þolendur kynferðisbrota greina frá því ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir.

Í þessari umræðu að undanförnu hafa verið háværar háværar sögusagnir um að svokallaðir NDA samningar (e. Non Disclosure Agreement) eða þöggunarsamningar séu notaðir af ofbeldismönnum til að reyna að fría þá ábyrgð á kynferðisbrotum.

NDA samningar tíðkast bæði hérlendis og erlendis, en þá sem trúnaðarsamningar, til að mynda þegar starfsmaður hefur aðgang að trúnaðargögnum fyrirtækis eða þegar viðkvæmum viðskiptaupplýsingum er deilt með mögulegum kaupanda.

Samkvæmt sögusögnunum er hins vegar um samninga að ræða sem hafa allt annan tilgang; að þagga niður kynferðisbrot. Eins og þetta hefur verið sett fram hefur fólk látið skrifa undir að það sé samþykkt samförum, og jafnvel að það skrifi undir að það muni ekki kæra viðkomandi fyrir nauðgun, en í framhaldinu sé síðan brotið kynferðislega á þeim sem hafa skrifað undir.

Þá hefur í umræðunni því verið velt upp hvort slíkir samningar hefðu í raun lagalegt gildi ef brotið væri á fólki eftir að það skrifar undir slíkan samning.

DV hafði samband bæði við ákærusvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem og lögmannsstofuna Rétt, og á hvorugum staðnum þekkti fólk til þess að þöggunarsamningar vegna kynferðisbrota hefðu komið inn á þeirra borð.

Kynferðisbrot sæta ákæru óháð samningum

Védís Eva Guðmundsdóttir, lögmaður hjá Rétti, segir slíka samninga ekki hafa komið inn á borð stofunnar og að lögmenn hjá Rétti þekki ekki til þess að slíkir samningar hafi komið til skoðunar innan réttarkerfisins. Hún tekur fram að kynferðisbrot muni sæta ákæru af hálfu ríkisvaldsins – ef lögregla hefði upplýsingar um slík brot, svo sem vegna kæru frá brotaþola – óháð slíkum samningi.

„Ástæðan er sú að almennt séð er ekki hægt að semja um að athæfi – sem er undir öllum kringumstæðum refsivert – sé leyfilegt eða heimilt samkvæmt samningi, enda er það ríkið, lögregla og ákæruvald, sem fara með rannsókn og ákærur í sakamálum og það er ríkið sem hefur ákveðið með hegningarlögum hvaða háttsemi er refsiverð. Einstaklingar hafa þannig sjaldnast forræði yfir því hvað ákæruvaldið gerir,“ segir Védís.

Samningur geti ekki náð til nauðgunar

Hún bendir á að til séu undantekningar á þessu, til dæmis hvað varðar húsbrot en þá þurfi brotaþoli að gera kröfu um að sakamál sé höfðað.

„Þessi undantekning hegningarlaga um að krafa komi frá brotaþola svo ákært sé á hins vegar ekki við um kynferðisbrot, líkamsmeiðingar eða manndráp. Fleira spilar þarna inn í hvað varðar skuldbindingar ríkisins, til dæmis kröfur í alþjóðasamningum, svo sem Istanbúl-samningnum, um að ríki bera skyldu til að vernda konur gegn öllum birtingarmyndum ofbeldis og til að fyrirbyggja það og sækja til saka gerendur ofbeldis. Þannig myndi samningur sem felur öðrum „heimild“ til nauðgunar á hinum einstaklingnum eða bann við kæru vegna nauðgunar, væntanlega aldrei halda fyrir dómi eða teljast lögmætur, þar sem efni hans er ólögmætt og refsivert, andstæður lögum og alþjóðasamningum,“ segir Védís.

„Varðandi samningagerð um að tveir einstaklingar muni stunda kynlíf, með samþykki beggja en um það skuli ríkja trúnaður, þá myndi slíkur samningur ekki ná til nauðgunar, enda er skilgreining nauðgunar samkvæmt lögum sú að samþykki brotaþola er ekki til staðar,“ segir Védís.

Hæfi, misskilningur eða ólögmæti

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, segir að uppfylla þurfi ýmis skilyrði til þess að samþykki teljist gilt. „Þannig útilokar eðli hagsmuna oft samþykki sem refsileysisástæðu. Þannig er litið svo á að brot gegn almannahagsmunum og stjórnskipan ríkisins séu þess eðlis að samþykki er útilokað sem refsileysisástæða. Einnig brot gegn dýrmætustu hagsmunum einstaklinga, það er brot gegn lífi, frelsi og heilsu einstaklinga. Slík brot eru talin vera svo alvarleg í eðli sínu að ekki þykir fært að viðurkenna samþykki við þau sem refisleysisástæðu,“ segir hún

Hulda tekur fram að varast beri að líta svo á að breyting á nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga árið 2018, þar sem samþykkisákvæði kemur inn, breyti einhverju um mat á því hvort unnt sé að gefa gilt samþykki fyrirfram fyrir nauðgun.

„Kynfrelsið er auðvitað lykilatriði þegar kemur að því að meta samþykki og komi slíkt mál inn á borð til lögreglu þá mun rannsókn beinast að því  hvernig samþykkið kom til, hvort brotaþoli hafi verið hæfur til að veita samþykki, hvort brotaþoli hafi haft vitneskju um aðstæður, hvort um misskilning hafi verið að ræða, hvort samþykkið hafi verið fengið með ólögmætum hætti, og svo framvegis,“ segir Hulda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“