Morgunblaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Matthíasi Sveinbjörnssyni, formanni Flugmálafélags Íslands, að þessar hindranir séu ekki í þágu öryggis því þær útiloki notkun brautarinnar í neyðartilvikum. „Vélin sem þarna átti í hlut lenti á braut sem var í notkun en vegna þess að það var hliðarvindur á þeirri braut lenti hún í vandræðum, skemmdist illa og þurfti að fara í miklar viðgerðir í kjölfarið,“ er haft eftir honum.
Hann sagði að svona hindranir hafi ekki sést á öðrum flugvöllum. Mölin geri það að verkum að erfitt sé að opna flugbrautina ef á þarf að halda. „Okkur finnst þetta svo mikill óþarfi því þetta er ekki í anda flugvirkja og ekki í þágu öryggis,“ sagði hann.
Ingvar Tryggvason, formaður öryggisnefndar Félags íslenskra flugmanna, sagði í samtali við Morgunblaðið að félagið hafi gert alvarlegar athugasemdir við þetta vegna þess að ákvörðunin hafi verið byggð á gölluðum verkfræðiskýrslum. „Það er búið að gera þessa flugbraut ónothæfa fyrir almennan rekstur en það er líka búið að gera hana ónothæfa til að nota í neyðartilfellum,“ sagði hann.