Á þessu ári verða gerðar um eitt þúsund offituaðgerðir í Klíníkinni í Ármúla. Rúmlega 12 þúsund Íslendingar eru í þeim flokki að geta sótt um að fara í offituaðgerð. Samkvæmt nýrri grein í breska læknablaðinu The Lancet kemur fram að offituaðgerð lengi líf hvers sjúklings að meðaltali um átta til tíu ár.
Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. „Niðurstöður rannsóknar sem lýst var í nýlegri grein sem birtist í breska læknaritinu Lancet sýna að þeir sem þjást af alvarlegri ofþyngd og gangast undir offituaðgerð auka lífslíkur sínar um sex til tíu ár,“ er haft eftir Sigurði Ingibergi Björnssyni, framkvæmdastjóra Klíníkurinnar.
Í svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar kemur fram að Klíníkin reikni með að gera um eitt þúsund offituaðgerðir á árinu. Þetta er mikil aukning frá 2017 en þá voru þær 62. Fréttablaðið hefur eftir Sigurði að offituaðgerðir séu orðnar stór hluti af starfsemi fyrirtækisins. „Þetta er uppsöfnuð þörf. Gera má ráð fyrir að um að 12 þúsund Íslendingar glími við alvarlega ofþyngd, samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Algengir fylgikvillar slíkrar of þyngdar eru sykursýki 2, háþrýstingur og kæfisvefn sem valda einstaklingnum þjáningum og heilsutjóni og eru jafnframt að valda kostnaði og álagi á heilbrigðiskerfið annars staðar,“ er haft eftir honum.
Hann sagði að magaermisaðgerð sé í raun tiltölulega einföld aðgerð sem gefist vel og fátítt sé að fylgikvillar komi upp.
Í fyrrgreindu svari Svandísar Svavarsdóttur kemur fram að 78% þeirra sem haga gengist undir aðgerðir af þessu tagi séu konur og 22% karlar. Meðalaldurinn er 44,4 ár.