„Það er verið að taka stöðuna á þessu með öðrum verkefnum. Það er mikið skilgreiningaratriði í dag hvað er klám,“ hefur Fréttablaðið eftir Ævari Pálma Pálmasyni, yfirmanni kynferðisbrotadeilarinnar, í umfjöllun um málið í dag.
Í hegningarlögum er kveðið á um að hver sá búi til eða flytji inn klám í útbreiðsluskyni, selur, útbýr eða dreifir á annan hátt klámritum, klámmyndum eða slíkum hlutum skuli sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum.
„Okkar forgangsröðun í kynferðisbrotadeildinni er á nauðganir, brot gegn börnum og önnur kynferðisbrot þar sem verið er að brjóta á einhverjum. Það er ekki þar með sagt að ef það er verið að fremja eitthvað sem við teljum smávægileg brot fyrir framan nefið á okkur þá förum við ekki í þau,“ er haft eftir Ævari um málið.
Aðspurður sagðist Ævar telja líklegt að hægt sé að gera tekjurnar af sölu efnis á Onlyfans upptækar ef um framleiðslu á klámi sé að ræða því þeirra sé þá aflað með ólögmætum hætti.