Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Gró Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, sagði að bannið sé tilkomið vegna þess að maíspokarnir innihaldi í raun plast út frá efnafræðilegum skilgreiningum. Þeir geti ógnað lífríkinu þótt þeir séu niðurbrjótanlegir. Hún sagði að skilgreining á plasti sé mjög víðtæk og ef íblöndunarefnum sé bætt við náttúrulegt efni eða ef það er meðhöndlað með efnafræðilegum hætti þá sé það plast, þar á meðal lífplast og maíspokar.
Hún sagði að maíspokar séu skárri en venjulegir plastpokar en þeir brotni ekki niður við hvaða aðstæður sem er. Hitastig ráði þar nokkru og geti þeir verið hættulegir umhverfinu.
Verslunum verður áfram heimilt að selja maíspoka eins og plastpoka en ekki á skilgreindum kassasvæðum.
Umhverfisstofnun hvetur fólk til að nota frekar margnota poka.