Dómurinn úrskurðaði í þremur málum er snúast um lögmæti þess að farþegar voru skyldaðir til að dvelja í farsóttarhúsi. Fimm kærur hafa verið lagðar fram og var úrskurðað í þremur þeirra í gær.
Fréttablaðið hefur eftir Jóni Magnússyni, lögmanni konu sem dvelur í farsóttarhúsi með dóttur sinni, að úrskurðurinn eigi við um þá sem geti sýnt fram á að þeir geti verið í sóttkví á heimili sínu hér á landi og hafi að öllum líkindum fordæmisgildi fyrir fólk sem er í sömu stöðu og umbjóðendur hans.
Fyrstu farþegarnir voru fluttir á sóttkvíarhótelið þann 1. apríl. Heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem segir að nú fari sóttvarnalæknir og ráðuneytið yfir úrskurðinn. Eins og staðan sé núna verði brugðist við honum með því að tilkynna þeim sem dvelja á sóttkvíarhótelum að þeim sé frjálst að ljúka sóttkví annars staðar ef þeir hafa viðunandi aðstöðu til þess. Sóttvarnayfirvöld biðla samt sem áður til þeirra sem dvelja á sóttkvíarhótelum að ljúka sóttkví á þeim því það sé besta leiðin til að draga úr útbreiðslu COVID-19.