Samkvæmt heimildum DV lést íslenskur maður á Landspítalanum í morgun af alvarlegum áverkum sem hann fékk þegar fjöldi manna réðist á hann fyrir utan heimili hans í Kópavogi í gær.
Maðurinn var rúmlega þrítugur. Talið er að þeir sem réðust á manninn hafi tengsl við erlend glæpasamtök.
DV hefur ítrekað reynt að ná í lögreglu í dag vegna málsins en án árangurs. Hvorki símtölum né sms-skilaboðum hefur verið svarað.
Uppfært kl. 19:16
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er um klukkustund síðan maðurinn var úrskurðaður látinn. Ekki er búið að ná í alla nánustu aðstandendur.
Málið er ekki talið hafa nein tengsl við morðið í Rauðagerði.
Von er á tilkynningu frá lögreglu á hverri stundu.
Uppfært kl 19:45
RUV greinir frá því að þrír erlendir ríkisborgarar séu í haldi lögreglu og málið sé rannsakað sem manndráp.
Engin tilkynning hefur enn borist frá lögreglu.
Uppfært kl. 20:00
Svohljóðandi tilkynning var að berast frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu:
Karlmaður um þrítugt lést á Landspítalanum í dag, en þangað var maðurinn fluttur í gærmorgun eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás í Kórahverfinu í Kópavogi. Tilkynning um málið barst lögreglu kl. 8.51 að morgni föstudagsins langa, en málsatvik voru í fyrstu mjög óljós. Þrír hafa í dag verið handteknir vegna málsins, en rannsóknin er á frumstigi og því er ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.
Ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir þremenningunum liggur ekki fyrir.
Málið er rannsakað sem manndráp.