Fyrsta marktæka gjóskufallið við eldgosið í Geldingadölum varð í gær eða fyrradag. Þetta kemur fram í færslu frá Eldfjallafræði og náttúruvárhóp Háskóla Íslands á Facebook.
„Austlægur útbreiðsluás bendir frekar til þess að þetta hafi gerst í gær eða á aðfaranótt Föstudagsins Langa. Gjóskufallið, þar sem það er svo gott sem samfelld þekja, myndar mjóan geira sem nær yfir hraunið austan gígana og nokkra tugi metra upp hlíðina á móti,“ segir í færslunni en vikurkornin sem komu úr gjóskunni eru gulllituð og afar fögur sjón.
Gjóskufallið innihélt einnig talsvert af nornahárum en það eru örþunnar glernálar. Þau myndast þegar kvikan er teygð út í örmjóa strengi.
Færsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.
https://www.facebook.com/Natturuva/posts/2873493719531383