Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Helga Gunnlaugssyni, prófessor í afbrotafræði, að hann telji öruggt að frumvörp Pírata og heilbrigðisráðherra um þessi mál auk umræðunnar um þau hafi haft áhrif. Könnunin var gerð á vegum Helga og Jónasar Orra Jónassonar, félagsfræðings.
„Fyrir tveimur árum vissu fáir um hvað afglæpavæðing neysluskammta væri. Nú er mikil umræða og ráðandi aðilar í samfélaginu farnir að tala fyrir henni,“ er haft eftir Helga.
Hvað varðar þau brot sem fólk hefur í gegnum tíðina talið alvarlegustu brotin hér á landi hafa fíkniefnabrot verið á toppnum en í nýju könnunin eru þau í þriðja sæti en 23% sögðu þau valda mestum vanda. Flestir, eða 30%, sögðust telja kynferðisbrot alvarlegustu og þar á eftir komu efnahagsbrot en 26% nefndu þau.
Helgi sagði að umræðan um kynferðisbrot hafi færst í aukana frá 2013. Það megi rekja til barnaníðsmála, Metoo og umræðu um stafrænt kynferðisofbeldi. Einnig hafi færst í vöxt að litið sé á fíkniefnamál sem heilbrigðismál en ekki afbrot. „Það hefur dregið úr óttanum gagnvart fíkniefnum og fólk er tilbúið að leita nýrra leiða til að takast á við þau,“ sagði hann.