Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. „Þegar við notum Pfizer förum við lengra niður í aldri, þeir sem eru yngri en sextíu ára og með undirliggjandi sjúkdóma fá Pfizer og þeir sem eru eldri en 60 og eða með undirliggjandi sjúkdóma fá AstraZeneca,“ er haft eftir Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Aðspurð sagði Ragnheiður að dæmi væru um að fólk sé hrætt við að fá bóluefnið frá AstraZeneca vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um aukaverkanir. „Við hvetjum þó fólk til að sýna skynsemi og þiggja bóluefnið því þetta eru svo hverfandi líkur,“ sagði hún og benti á að aukaverkanir geti hlotist af öllum lyfjum. „Það er alltaf einhver áhætta alls staðar. Það er örugglega meiri áhætta að fara út í umferðina á morgnana,“ sagði hún einnig.
Samkvæmt bólusetningaráætlun á að vera búið að gefa 75% þjóðarinnar að minnsta kosti einn skammt af bóluefni í síðari hluta júní og sagðist Ragnheiður bjartsýn á að það markmið náist.