fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Benjamín bendir á raunverulegan sökudólg í Bræðraborgarstígsmálinu – „Þetta mál er kaldrifjaður glæpur auðmanns“

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 27. apríl 2021 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Réttarhöldin yfir Marek Moszczynski sem gefið er að sök að hafa kveikt í íbúðarhúsi við Bræðraborgarstíg 1 síðastliðið sumar og banað þannig þremur og sýnt tíu til viðbótar banatilræði eru nú í fullum gangi. Annar dagur vitnaleiðslna af þremur áætluðum fór fram í dag og hefur DV sagt ítarlega frá framburði vitna í gær og í dag.

Benjamín Julian, starfsmaður Eflingar sem starfa sinna vegna hefur kannað aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi ítarlega undanfarin ár, gerði réttarhöldin að umfjöllunarefni pistils síns á samfélagsmiðlum í gær.

„Nú er réttað yfir manninum sem lagði eld að Bræðraborgarstíg 1 í fyrra. Eðlilega beinist athyglin þá að því persónulega og tragíska, nú er talað um „harmleik“ og málið einskorðað við sjúkrasögu manns sem sjáanlega hefur átt ömurlega daga áður en hann, í vitrofi, kveikti í húsinu sem svo margir bjuggu í,“ skrifar Benjamín.

„En þetta mál er ekki harmleikur,“ heldur hann áfram. „Þetta mál er kaldrifjaður glæpur auðmanns sem ekki lét ná í sig þegar húsið brann, þótt það væri hans eign. Hans eina verk var að gera af örkinni lögmann sem gerði lítið úr þeim sem bentu á hans ábyrgð.“

Benjamín vísar þar til eiganda hússins, Kristins Jóns Gíslasonar. Kristinn átti húsið sem brann við Bræðraborgarstíg 1 og næsta hús við, Bræðraborgarstíg 3 í gegnum félagið HD Verk ehf., sem var svo alfarið í eigu H20 ehf., að fullu í eigu Kristins.

Samkvæmt ársreikningum félagsins HD Verk átti það þrjár fasteignir í viðbót, allar í Kópavogi. Öll húsin höfðu verið stúkuð niður í herbergi og leigð út til erlendrs verkafólks. Í kjölfar brunans reyndu allir fjölmiðlar landsins að ná tali af Kristni án árangurs. Allar yfirlýsingar eigandans komu þess í stað í gegnum lögmann á hans vegum.

Samtals átti HD Verk eignir fyrir hátt í einn milljarð króna.

Benjamín skrifar áfram:

Þessi maður á enda fleiri hús, öll óhæf til íbúðar, öll þekkt að endemum, og öll mala þau gull fyrir hann.

Af efstu hæð hússins við Bræðraborgarstíg voru aðeins tvær útgönguleiðir: Niður brennandi stigagang eða út um gluggann. Engir brunastigar voru þar, brunavarnir voru engar. Húsið fuðraði upp í einu leiftri og fólk hoppaði út í dauðann, ömurlegustu endalok sem hugsast gátu á vanda sem nágrannar höfðu margoft bent öllum sem heyra vildu á — og ef til vill mörgum sem ekki vildu heyra.

Í kjölfar brunans kom í ljós að margoft hafði verið bent á, kvartað og skrifað um húsið við Bræðraborgarstíg 1. Húsinu hafði verið breytt án tilskilinna leyfa og brunavarnir ekki eftir nýjustu stöðlum.

Íbúum Bræðraborgarstígs 1 verður ekki bjargað nú, en þúsundir búa enn í óleyfishúsum. Af þeim eru ófá í eigu sama manns og á rústirnar í Vesturbæ. Í þeim húsum hefur hann haft láglaunafólk að féþúfu, oftar en ekki fólk sem starfsmannaleigur sækja til landsins. Starfsmannaleigum sem finna fólk þar sem minnst þekking er á íslenskum skilyrðum og þar sem fólk talar svo litla ensku að þau geta lítið lært um valkosti sína þegar hingað er komið.

Benjamín fer hörðum orðum um eigandann í pistli sínum:

Eigandi Bræðraborgarstígs 1 er glæpamaðurinn í þessari sögu, og stjórnvöld hafa nú í heilt ár velt því fyrir sér hvernig megi bregðast við. Engar tillögur hafa komið fram um að svipta svona glæpamenn forræði yfir dauðagildrunum sínum, eða smíða hús undir það fólk sem býr í þeim. Nei, þetta mál virðist ekki hafa verið nóg — meira á að þurfa að gerast.“

Veikur maður, hættulegur sér og öðrum, er vissulega saga til varnaðar — en í þroskuðu og ríku samfélagi á slík saga ekki að enda eins og hún gerði 25. júní 2020. Húsnæðismarkaðurinn í bænum er slæmur, en hér hefur sannast að hann er lífshættulegur. Þetta hafa stjórnendur bæjar og lands vitað, en ekkert að gert. Þvert á móti hefur nauð leigjenda bara aukist, ár eftir ár, og fært fleiri og fleiri þeirra í krumlur iðnaðarhúsaeigendanna.

„Það er hinn raunverulegi glæpur,“ skrifar hann að lokum.

Ljóst er að Marek Moszczynski glímdi við mikil andleg veikindi dagana fyrir brunann. Hann hafði verið lagður inn á sjúkrahús vegna alvarlegs magasárs og lýsa vitni miklum hegðunarbreytingum eftir þau veikindi.

Skýrsla Húsnæðis og mannvirkjastofnunar um brunann leiddi það þá í ljós að húsið var talið óbyggilegt, brunavörnum var áfátt og farið hafði verið í miklar og ósamþykktar endurbætur á húsinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum