Stefán Vagn Stefánsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, mun leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Stefán, sem starfar einnig sem yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra, ræddi lífsgöngu sína í Fréttablaðinu í dag.
Stefán hóf störf hjá lögreglunni á Sauðárkróki árið 1997 en flutti stuttu seinna til Reykjavíkur. Þar endaði Stefán í sérsveitinni sem sprengjusérfræðingur. Eftir sex ára starf þar var honum boðið að fara til Afganistan til að leiða hóp friðargæsluliða NATO.
Hann snéri heim árið 2007 og tók hann þá þátt í að byggja upp nýja greiningardeild hjá Ríkislögreglustjóra. Hlutverk hennar var að meta öryggi landsins og finna þá veikleika sem voru til staðar. Ári seinna tók hann svo við sem yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra.
Þegar hann hafði starfað í aðeins tvo mánuði gekk ísbjörn á land í umdæminu og alla leið upp á Þverárfjall. Hver einasti vopnfæri Skagfirðingur var mættur að fjallinu til að sjá björninn.
Meðan fólk fylgdist með birninum í fjallinu fóru lögreglufulltrúar upp að leita að honum. Mikil þoka var á svæðinu og aðstæður erfiðar. Það sem þeir vissu þó ekki var að á meðan þeir voru að leita að birninum, var björninn líka að leita að þeim. Hann hafði fundið lyktina af fólkinu.
Stefán áætlar að það hafi verið aðeins sex eða sjö metrar á milli hans og bjarnarins þegar þeir mættust á fjallinu. Stefán hljóp niður fjallið og björninn á eftir. Allt í einu sneri björninn við og þeir misstu sjónar á honum. Þá var ákveðið að það eina í stöðunni væri að fella dýrið.