Guðmundur Ingi Guðbrandsson fór sex ára í heimavistarskóla og tók snemma þá ákvörðun sem hann er stoltastur af, að hætta að gráta. Hann er sveitastrákur og umhverfismálin eru honum í blóð borin. Guðmundur Ingi er fyrsti opinberlega samkynhneigði karlmaðurinn til að gegna ráðherraembætti á Íslandi og segir hann mikilvægt að hafa fyrirmyndir.
Ljósmyndir: Valgarður Gíslason
Sérstakar þakkir: Perlan – Undur íslenskrar náttúru
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, eða Mummi eins og hann er alltaf kallaður, er sveitastrákur í húð og hár. Hann er alinn upp á Brúarlandi á Mýrum, rétt vestan við Borgarnes, og var svo heppinn að amma hans bjó á næsta bæ, aðeins um þrjátíu metra í burtu.
„Að fá að vaxa úr grasi með ömmu sem var fædd árið 1911 og upplifa í gegn um hana hvernig Ísland breyttist frá því að vera bændasamfélag og yfir í nútímann var alveg ómetanlegt,“ segir hann og rifjar upp þegar amma hans var orðin heldur öldruð og byrjuð að þynna kaffið mikið með heitu vatni: „Hún leit þá gjarnan ofan í kaffibollann og sagði: Jæja, nú get ég horft í gegnum kaffið. Þá er það passlega sterkt fyrir mig. Þetta er bara eins og í seinna stríði!,“ en kaffið var gjarnan þynnt mikið á stríðsárunum til að drýgja það.
Foreldrar Mumma eru Guðbrandur Brynjúlfsson, bóndi og búfræðingur, og Snjólaug Guðmundsdóttir, vefnaðarkennari og handverkskona. „Þau eru ekki ófá, pörin sem urðu til milli húsmæðraskóla og bændaskóla. Mamma var kennari í húsmæðraskólanum á Varmalandi en pabbi var í framhaldsdeildinni á Hvanneyri,“ segir Mummi, en þau eru enn búsett á Mýrunum ásamt bróður hans sem er þar með sína fjölskyldu.
„Ég heimsæki þau eins mikið og ég get, og ber sterkar taugar þangað. Það er þarna sem áhugi minn á náttúru og umhverfisvernd kviknar. Pabbi hélt vel að manni að ganga vel um landið og ég ólst upp við það sem í dag er kallað hringrásarhagkerfi þar sem hænurnar fengu afgangana. Í dag tökum við frá lífrænan úrgang en ég er ekki með neinar hænur lengur heldur set hann í safnhaug,“ segir hann og kímir.
Sturtaði niður vanlíðaninni
Aðeins sex ára gamall byrjaði Mummi í heimavistarskóla að Varmalandi í Borgarfirði. Fyrsta árið gisti hann í skólanum eina nótt í mánuði, sjö ára gamall var hann þar viku í senn og þrjár vikur heima, en tíu ára dvaldi hann í skólanum alla virka daga og fór bara heim á Brúarland um helgar. „Þetta tók á mörg börn og ég var eitt þeirra sem átti erfitt með þessa fjarveru að heiman fyrstu árin. Ég var með mikla heimþrá og fannst bara ekkert sniðugt að vera svona lengi í burtu frá mömmu og pabba. Þarna tók ég síðan þá ákvörðun í lífinu sem ég er stoltastur af – ég ákvað að hætta að gráta. Ég var tíu ára gamall þegar ég fór inn á klósett í skólanum, tók þá ákvörðun að hætta að láta mér líða illa í skólanum og sturtaði vanlíðaninni niður í klósettið. Þetta var stór ákvörðun fyrir lítinn pjakk en mér tókst að standa við hana. Auðvitað var í lagi að gráta þegar maður meiddi sig og slíkt. Þetta snerist ekki um að bæla grátur niður heldur að ná tökum á líðan sinni. Það tókst og ég er stoltur af því.“
Honum fannst síðan sífellt skemmtilegra í skólanum, svo skemmtilegt raunar að þegar átti að hætta með heimavistina tók hann þátt í að fá skólayfirvöld til að fresta því um tvö ár til að árgangurinn hans gæti klárað grunnskólann á heimavist. „Ég var því ungur byrjaður að skipta mér af og hafa áhrif á samfélagið mitt.“
Frá Varmalandi lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri þar sem Mummi var formaður nemendafélagsins lokaárið sitt. „Við tókum upp sorpflokkun sem var mjög skammt á veg komin hér á landi á þessum tíma. Ég var enn mjög áhugasamur um umhverfismál. Þegar maður er alinn upp í sveit þá öðlast maður gott læsi á landið sitt og átthagana. Ég er auðvitað alinn upp á Mýrunum þar sem fólk lærir fljótt að betri er krókur en kelda, því ef þú lendir í keldunni varstu yfirleitt fastur og komst ekki upp úr henni. Ég lærði snemma að þekkja landslagið og þetta er þekking sem lifir með manni.“
Síðasta árið í menntaskóla las Mummi Vefarann mikla frá Kasmír eftir Halldór Laxness og fékk sterka löngun til að fara í klaustur. Hann átti kærustu á þessum tíma sem langaði líka mikið að fara í klaustur. Það varð hins vegar úr að hann fór í klaustur í Þýskalandi en ekki hún.
„Sjálfsagt var ég þarna að reyna að finna sjálfan mig þó ég hefði ekki viðurkennt það þá. Tíminn í klaustrinu var frábær. Ég vann fyrir fæði og húsnæði, og tók þátt í öllum bænastundum. Fyrsta bænastundin var klukkan fimm á morgnana og mér fannst tíminn milli fimm og sex vera besti tími dagsins. Ég heimsótti klaustrið í fyrsta skipti aftur jólin 2019. Mig hafði þá lengi langað að koma þangað aftur, bara í örfáa daga. Mér fannst virkilega skemmtilegt að þeir voru búnir að gera klaustrið kolefnishlutlaust, farnir að framleiða orku úr gasi frá skepnum, setja upp sólarsellur og selja rafmagn, sem var framleitt með umhverfisvænum hætti. Það var líka gaman að koma aftur inn í kirkjuna. Ég er ekki mjög trúaður maður en kyrrðin og róin fannst mér alltaf góð.“
Skrifaði páfanum tvisvar
Mummi var tæplega þrítugur þegar hann kom út úr skápnum og er fyrsti opinberlega samkynhneigði karlmaðurinn til að gegna ráðherraembætti á Íslandi. Hann segir mikilvægt að hinsegin fólk hafi fyrirmyndir um allt samfélagið.
„Í mínum huga skiptir það miklu máli fyrir hinsegin fólk að sjá að önnur hinsegin manneskja geti orðið ráðherra án þess að það sé neitt tiltökumál. Ég hef allavega ekki orðið var við að þetta sé neitt á milli tannanna á fólki. En þegar ég var að alast upp þá hafði ég engar fyrirmyndir. Ég þekkti enga hinsegin manneskju þegar ég var að alast upp. Þegar Páll Óskar Hjálmtýsson fór að verða áberandi var hann ákveðin fyrirmynd en það var enginn opinberlega samkynhneigður í stjórnmálum eða í stjórnum fyrirtækja sem var áberandi í samfélaginu á þessum tíma.
Ég er nýbúinn að lesa bókina Berskjaldaður sem Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir skrifar um sögu Einars Þórs Jónssonar. Þetta er átakanleg lesning, bæði saga hans sem samkynhneigðs manns sem elst upp í litlu samfélagi og sömuleiðis sú útskúfun sem fólk með HIV varð fyrir. Það skiptir svo miklu máli fyrir alla hópa að hafa fólk í áberandi stöðu sem það getur litið upp til. Þá á ég ekki við að sú manneskja sé betri en aðrir heldur að fólk sjái að þetta er hægt, að það sé samfélagslega viðurkennt að manneskja úr þeirra hópi sé á þessum stað.
Ég tek þátt í Pride göngunni. Mér finnst skipta máli að ég, sem hinsegin ráðherra, taki þátt í slíkum viðburðum. Á erlendri grundu kem ég líka að því að ég sé hinsegin, sérstaklega í löndum þar sem hallar á réttindi hinsegin fólks.“
Mummi hefur tvívegis skrifað páfanum vegna málefna hinsegin fólks, nú síðast í mars vegna ákvörðunar kaþólsku kirkjunnar um að banna blessum sambanda hjá samkynja pörum.
Meðal þess sem stóð í því bréfi var: „Við óskum eftir því að vera viðurkennd af samfélaginu sem við sjálf. Í síðasta bréfi mínu til þín minnti ég þig á að kynhneigð fólks er ekki lífsstíll og ekki val. Ekki heldur kynhneigð hinsegin fólks. Kynhneigð er ekki tískufyrirbrigði sem við skiptum út með nýrri vorlínu. Hún bara er. Maður í þinni stöðu er áhrifavaldur í lífi margra út um allan heim. Orðum þínum og ákvörðunum fylgir því mikil ábyrgð. Ég skora á þig að draga ákvörðun kaþólsku kirkjunnar til baka og standa með hinsegin fólki.“
Hann bendir á að Ísland er framarlega þegar kemur að jafnrétti kynjanna og segir að á sama hátt eigum við sem þjóð að geta komist framar hvað varðar réttindi hinsegin fólks. „Við höfum verið að færast ofar á Regnbogakortinu, meðal annars út af nýlegri löggjöf um kynrænt sjálfræði. Við eigum að setja okkur það markmið að vera efst á Regnbogakortinu. Við eigum að vera best í heimi þegar kemur að málefnum hinsegin fólks. Við höfum verið að sjá neikvæða þróun víða í Austur-Evrópu og Rússlandi, bæði hvað varðar réttindi kvenna og hinsegin fólks. Hlutirnir eru fljótir að breytast og það skiptir máli að ná vel utan um fræðslu og vitundarvakningu. Núna er það ekki síst transfólk sem verður fyrir aðkasti og það verður að breytast.“
Stoppaði í sokka
Áður en Mummi hóf háskólanám ákvað hann að nauðsynlegt væri að læra undirstöðu[1]atriði heimilishalds og skráði sig í nám í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík.
„Mamma var að kenna í Húsmæðraskólanum á Varmalandi og ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi áður en ég fór í grunnskóla að vera þar mikið með henni. Ég man vel eftir því að í matsalnum var alltaf beðið eftir að allir væru búnir að borða áður en staðið var upp frá borði, meira að segja fimm ára ég sem var bara svolítið lengi að borða.
Eftir menntaskólann fannst mér algjörlega nauðsynlegt að læra ákveðna hluti, eins og að elda mat og stoppa í sokka. Ég lærði líka að vefa, sem er það sem bæði mamma og mamma hennar gerðu. Hússtjórnarnámið var mjög skemmtilegt og ég tengi mikið við það sem við lærðum til að sporna gegn matarsóun. Ég lærði að meðhöndla mat, geyma hann og nýta afganga sem best. Ég veit samt að þau sem þekkja mig vel eiga eftir að hlæja við að lesa þetta því ég er ekki mjög duglegur að elda. En þetta var bæði skemmtilegt og praktískt, og ég bý enn að því sem ég lærði þarna.“
Mummi lauk síðan BSc-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í umhverfisfræðum frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum.
„Það er stundum talað um að það séu tvær gerðir af líffræðingum, stígvélalíffræðingar og sloppalíffræðingar. Ég var alltaf hrifnari af stígvélunum. Kannski er það bóndasonurinn í manni. Ég stúderaði bæði plöntur og ferskvatnsfiska.
Í Yale byggði ég ofan á allan þann grunn sem ég hafði í vistfræði og líffræði, og það opnaði augu mín að kynnast fólki frá öllum heimsálfum með ólíkan bakgrunn. Þarna skapaðist suðupottur hugmynda og reynslu. Námið var praktískt og gerði okkur kleift að skilja grundvallaratriði í hagfræði, félagsfræði, vistfræði og lögfræði til að við áttuðum okkur á þeim þverfagleika sem umhverfismálin eru, og nauðsynlegt er til þess að geta leyst viðfangsefni þeirra.
Loftslagsmál sem dæmi hafa áhrif á veðurfar og lífríki, þau hafa áhrif á efnahagslega möguleika á tilteknum svæðum, svo sem hvaða matvæli er hægt að rækta og hvernig búfénaður dafnar. Stríðið í Sýrlandi hefur verið rakið til loftslagsbreytinga, þar urðu miklir þurrkar sem leiddu til fæðuskorts og úr urðu átök um auðlindirnar.“
Snaraukið fjármagn
Hann var framkvæmdastjóri Landverndar þegar hann var bókstaflega sóttur í stól umhverfisráðherra árið 2017. Hann steig því sín fyrstu skref á þingi og í flokkapólitík sem ráðherra.
„Þetta var vissulega stórt skref. Ég hafði verið hinum megin borðsins, endalaust að hvetja stjórnvöld og fyrirtæki til að gera betur í umhverfismálum. Ég var auðmjúkur gagnvart því að taka við ráðherraembættinu þegar Katrín [Jakobsdóttir] leitaði til mín og ég ákvað að taka þetta að mér eftir að ég hafði séð stjórnarsáttmálann og sá að þessari ríkisstjórn var alvara með aðgerðir í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Þetta var sannarlega brött lærdómskúrfa. Þó ég hefði lifað og hrærst í umhverfismálunum var ég þarna allt í einu orðinn sá sem ber ábyrgð á svo mörgu sem tengist framkvæmd umhverfismála hér á landi, ekki lengur bara sá sem veitti aðhald. Það hefur verið ánægjuleg lífsreynsla að taka þátt í undirbúningi þingmála og afgreiðslu þeirra í þinginu. Vissulega hef ég ekki náð öllu í gegn en stórum hluta af því. Fyrir mér skiptir miklu máli að það sé alltaf hreyfing á umhverfismálunum í þá átt að heimurinn verði byggilegri. Umhverfis- og náttúruverndarmál eru velferðarmál.“
Mummi er afar ánægður með auknar fjárveitingar til ráðuneytisins á kjörtímabilinu, en það hefur orðið um 50% aukning frá 2017 til 2021.
„Þetta aukna fjármagn gefur stóraukinn slagkraft við að fylgja eftir stefnum. Í minni tíð hefur verið sett fram fjármögnuð loftslagsáætlun, fjármögnuð áætlun um að draga úr plastmengun og við erum að ýta úr vör fjármagnaðri áætlun til að draga úr matarsóun. Oft er miklum tíma varið í að gera góðar stefnur og áætlanir en eftirfylgnin er ekki alltaf næg. Þar skiptir fjármagn höfuðmáli.“
Hann er heilt yfir sáttur við þann árangur sem náðst hefur í málaflokknum á kjörtímabilinu. „Ég er ekki alveg búinn! En eins og staðan er núna er ég stoltastur af því að hafa náð að keyra loftslagsmálin áfram á þverfaglegan hátt þannig að þau snerti öll ráðuneyti, opinberar stofnanir, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Okkur hefur tekist að fara úr algjörri kyrrstöðu í loftslagsmálum í stjórnarráðinu, og ég vil meina að það hafi ríkt kyrrstaða þegar ég kom hingað, yfir í að vera komin með metnaðarfull markmið og fjármagnaðar aðgerðir. Það var engin áætlun til um hvernig við ætluðum að takast á við þessa stærstu áskorun 21. aldarinnar, það var engin framtíðarsýn og lítið fjármagn sem átti að verja til þeirra stóru verkefna sem blasa við okkur.“
Hann viðurkennir að í sumum málefnum vilji hann geta tekið stærri skref. „Ég hefði viljað geta tekið hálendisþjóðgarð og rammaáætlun fyrr til meðferðar í þinginu en þegar ég ætlaði að koma með þessi mál fram skall COVID á. Mér hefur fundist hvað erfiðast hversu mikill tími fór í að koma fram með rammaáætlunina og ég vonast til að bæði hún og háalendisþjóðgarðurinn hljóti afgreiðslu þingsins í vor. Stundum hefur mér fundist málin mín tefjast of lengi í meðförum stjórnarflokkanna, frá því ég legg þau fram í ríkisstjórn og þar til stjórnarflokkarnir samþykkja að leggja þau fram á þingi. Svo ég tali hreinskilnislega þá hef ég ekki alltaf verið ánægður með það. Í grundvallaratriðum hefur mér þó fundist samstarfsflokkar okkar vilja greiða götu þeirra mála sem ég hef komið fram með.“
Bjartsýnni fyrir hönd umhverfisins
Honum er mikið í mun að hálendisþjóðgarður verði að veruleika en frumvarpið hefur verið nokkuð umdeilt.
„Hálendisþjóðgarður hefur verið í undirbúningi í fimm ár þó frumvarpsgerðin hafi ekki byrjað fyrr en á þessu kjörtímabili. Ákvörðun um að ráðast stofnun hálendisþjóðgarðs var tekin í stjórnarsáttmála. Það sem við erum að vinna með núna er í raun betri útgáfa af lögunum um Vatnajökulsþjóðgarð sem voru samþykkt 2007. Við höfum átt í miklu og góðu samtali við sveitarfélögin á svæðinu og þær gagnrýnisraddir sem heyrast eru mikið til svipaðar og áður en Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður. Þegar fólk á því svæði er spurt hvort það myndi vilja fara til baka, áður en hann varð að veruleika, þá vill það enginn. Fólk sér tækifærin, bæði þegar kemur að því að vernda náttúruna og tækifærin fyrir ferðaþjónustuna.
Ég vil meina að hálendisþjóðgarður skipti Ísland miklu máli. Það skiptir máli fyrir ímynd Íslands ef við tökum þá ákvörðun að afmarka stórt svæði og vernda um ókomna tíð, en jafnframt tryggja að fólk geti heimsótt þetta svæði, notið náttúrunnar og kynnst sögunni. Þegar kemur að ferðamönnum þá er gott að geta beint þeim á ákveðin svæði. Það verða settar upp gestastofur á láglendinu. Með því er verið að senda skýr skilaboð um að þarna sé eitthvað merkilegt og hvatning til að staldra þar við. Þá eru meiri líkur á að fólk gisti þar, fari út að borða og nýti sér aðra afþreyingu. Þarna er því efnahagslegur ávinningur fyrir byggðirnar í nágrenni þjóðgarðsins.
Ég hef þá sýn að við eigum að vera náttúruverndarland – þjóðgarðalandið Ísland – náttúrunnar sjálfrar vegna, en ég held líka að það skapi okkur jákvæða ímynd sem hefur svo fjölþætt áhrif, til að mynda á útflutning á vörum og þjónustu. Ég vil að þessi sýn sé fyrir hendi og að við vinnum eftir henni.“
Alþingiskosningar fara fram í haust og gefur Mummi kost á sér í forvali Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi þar sem hann sækist eftir því að leiða listann, en hann hefur verið varaformaður flokksins frá landsfundi 2019.
„Ég er að gefa kost á mér til að vera þingmaður, hvort sem ég væri í stjórn eða stjórnarandstöðu, nú eða ef við færum aftur í stjórn og mér væri falið að vera áfram ráðherra. Hér skipta hugsjónir máli. Minn flokkur hefur barist fyrir umhverfisvernd, réttlátari skiptingu auðs, að við búum til jöfn tækifæri fyrir fólk óháð stöðu, efnahag, kyni og búsetu. Við eigum að passa upp á jörðina og helst skila henni til afkomenda okkar í betra ásigkomulagi en þegar við tókum við henni.“
Umhverfismálin hafa verið ær og kýr Mumma frá æsku og hann finnur mikinn mun á síðustu árum á því hversu auðveldara er nú að ná eyrum fólks. „Það er bara á síðustu tveimur, þremur árum sem loftslagsmálin fengu verðskuldaða athygli. Við höfum orðið vitni að loftslagsverk – föllum og ég fagna innilega þeirri miklu vitundarvakningu og hugarfarsbreytingu sem hefur orðið á stuttum tíma. Hún hefur gefið mér innblástur og kraft í því sem ég er að gera og stutt við þau opinberu verkefni sem eru í gangi.
Ég er ánægður með að hafa verið á stól umhverfisráðherra á þessum tíma og geta bæði stutt við þróunina og komið nauðsynlegum aðgerðum til framkvæmda. Ég er miklu bjartsýnni en ég var fyrir nokkrum árum og það er góð tilfinning.“