Almannavarnir blésu til óvænts upplýsingafundar í dag. Tilefnið eru þrjú ný smit, tvö þeirra eru af völdum breska afbrigðisins, sem er mjög smitandi, og beðið er eftir raðgreiningu á því þriðja. RÚV greinir frá.
Eitt af smitunum þremur er rakið til starfsmanns á Landspítalanum en vegna þess smits eru nú um 50 manns í sóttkví og fara í sýnatöku.
Þórólfur útskýrði á fundinum að farþegi hefði komið hingað til lands 26. febrúar með neikvætt PCR-próf og neikvæða fyrstu skimun. Á fimmta degi sóttkvíar greindist hann hins vegar með breska afbrigði kórónuveirunnar.
Þórólfur segir að það skýrist á næstu dögum hvort herða þurfi aftur samkomutakmarkanir vegna þessara smita. „Ef það kemur í ljós að það sé komin einhver dreifing á veiruna út fyrir þennan hóp sem við erum að tala um núna þá þarf svo sannarlega að endurskoða afléttingarnar sem hafa verið í gangi, finnst mér,“ sagði Þórólfur.
Einn hinna smituðu var á tónleikum í Hörpu á föstudagskvöld. Nokkrir tugir eru í sóttkví vegna þess smits.