„Þetta hefur ekki komið til kasta borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Við vitum af þessu máli, fylgjumst með því og erum til taks ef á þarf að halda,“ segir Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðneytisins, um mál íslenskrar konu sem kærði hópnauðgun á Gran Canaria á sunnudag en atvikið átti sér stað föstudagskvöldið 26. febrúar.
Sveinn segir að ekki hafi verið óskað eftir aðstoð borgaraþjónustunnar vegna málsins en áfram verði fylgst með því.
Greint var frá því í fjölmiðlum í gær að fjórir menn hefðu verið ákærðir fyrir árásina. Þeir eru sagðir vera hælisleitendur frá Norður-Afríku og hafa komið nýlega til landsins með báti.
Þjóðerni konunnar hefur verið nokkuð á reiki og var hún um tíma álitin vera írsk. DV hefur hins vegar öruggar heimildir fyrir því að hún er íslensk en hún hefur búið í mörg ár á Gran Canaria. Hún er lítt þekkt á meðal Íslendinga sem búsettir eru á Kanaríeyjum og hefur að sögn ekki verið virk í félagsstarfsemi þeirra.
DV ræddi stuttlega við Guðhjörgu Bjarnadóttur sem hefur haft vetursetu á Gran Canaria undanfarin þrjú ár en kynni hennar af landi og þjóð ná yfir 20 ár aftur í tímann.
Aðspurð segir hún að glæpurinn sé óvenjulega hrottalegur miðað við það sem hún eigi að venjast á þessum slóðum. Hún þekkir hins vegar ekki til málsins sem slíks og þekkir ekki konuna sem varð fyrir árásinni. Árásin átti sér stað á ferðmannasvæðinu Púerto Ríkó, sem staðsett er í bænum Mogán. Að sögn Guðbjargar búa mjög fáir Íslendingar á þessum slóðum, hugsanlega ekki aðrir en umrædd kona og fjölskylda hennar.
„Yfirleitt gera Íslendingarnir vart við sig í íslenska samfélaginu á Kanaríeyjum en þetta fólk virðist ekki hafa gert það,“ segir Guðbjörg.
Sjálf segist hún ekki hafa slæma reynslu af flóttamönnum frá Afríku sem hefur fjölgað töluvert undanfarið á Gran Canaria. „Það er auðvitað misjafnt fólk þarna rétt eins og meðal Íslendinganna en við höfum ekkert haft undan þessu fólki að kvarta. Yfirvöld eru að vinna í því að koma þessu fólki frá eyjunum aftur,“ segir Guðbjörg. Hún segir að allskonar tröllasögur gangi um flóttafólk á svæðinu, en „yfirleitt er enginn fótur fyrir þeim. Það er bara með þennan hóp eins og aðra þjóðfélagshópa, það er alltaf þetta eina prósent sem er til vandræða, hvort sem það eru Íslendingar eða einhverjir aðrir.“
Konan er sögð hafa gefið sig á tal við mennina til að spyrja þá út í aðstæður þeirra og hlutskipti, er þeir réðust á hana og nauðguðu. Mennirnir sitja í gæsluvarðhaldi og eiga ekki möguleika á að losna úr haldi gegn tryggingu (Vísir.is).
Íslenska konan hefur búið í Puerto Rico með fjölskyldu sinnu um árabil. Hún leitaði til læknis í kjölfar árásarinnar sem gaf út áverkavottorð sem styður við ákæru hennar. Hinum ákærðu hafði verið úthýst frá dvalarstað sínum, húsnæði fyrir hælisleitendur, þegar konan nálgaðist þá til að spyrja um stöðu þeirra. Hópnauðgunin átti sér stað úti á víðavangi um miðja nótt, samkvæmt heimildum La Provincia.