Angjelin Sterkaj, 35 ára gamall albanskur maður sem játað hefur morðið á Albananum Armando Bequirai í Rauðagerði, komst í fréttir þann 3. september árið 2020, er hann var bendlaður við hópslagsmál í miðborg Reykjavíkur.
Suðuramerískur maður, búsettur hér til 14 ára, sagðist þá hafa verið þolandi í hrottalegri hópárás sem hafi verið knúin kynþáttahatri. Gerendur í málinu voru sagðir vera Albanar.
Einn þeirra var umræddur Angelin Sterkaj, sem steig fram í viðtali við Fréttablaðið. Þar neitaði hann því að hann og albanskir félagar hans hefðu átt upptökin að slagsmálunum. Í fréttinni segir hann að hinir meintu þolendur hans hefðu mætt á vettvang vopnaðir hnífum og járnkylfum og þeir hefðu ráðist á hann og félaga hans.
Þá segir enn fremur í fréttinni:
„Hann segir að átök milli hópanna tveggja eiga sér langa aðdraganda en öll deilumál hafi verið leyst fyrir ári síðan. Um síðustu helgi gengu hins vegar tveir aðilar úr hinum hópnum upp að albönskum dyraverði sem vinnur á Kofanum, slógu hann og sögðu við hann „að hann myndi deyja í kvöld.“
„Eftir það hringir hann í vini sína, vinir hans mæta og hann segir þeim hvað gerðist. Við fórum þangað fimm saman til að ræða við þá sem réðust á hann. Þegar við mætum tökum við fljótlega eftir því að þeir voru 10 saman og þeir réðust á okkur,“ segir Angjelin.
„Þetta var allt planað, það voru þeir sem voru með hnífa og svo voru einhverjar stelpur þarna með piparúða,“ segir Angelo og ítrekar að það stóð aldrei til að þeirra hálfu að ráðast á þá. Hann fékk sjálfur piparúða í augun og segir það svíða enn.“
Angjelin vísaði jafnframt ásökunum um kynþáttafordóma til föðurhúsanna. Í viðtalinu kom fram að Angjelin á íslenskan son. Í frétt DV í gær kom fram að hann hefur verið í sambúð með konu hér á landi og var um tíma búsettur í miðbænum. Hann sagði í áðurnefndu viðtali við Fréttablaðið:
„Það halda allir að allir Albanar sem eru hér á landi eru bara til vandræða. En ég ber virðingu fyrir öllum á þessum landi. Ég á vini frá fjölmörgum þjóðernum og fullt af íslenskum vinum. Ég er hálf íslenskur. Hálf fjölskyldan mín er íslensk og sonur minn er íslenskur.“
DV hefur fundið gögn sem virðast benda eindregið til þess að Angjelin hafi verið eftirlýstur í Albaníu á síðasta ári og eigi þar óafplánaðan dóm fyrir ofbeldisfullt rán.