Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Haft er eftir Ásgerði að þetta sé mun meiri fjöldi en venjulega. „Við erum búin að vera með páskaúthlutanir allan mars, en við urðum að byrja snemma, annars hefðum við aldrei náð þessu,“ sagði hún.
Einnig sagði hún að þetta árið sé hægt að veita fólki vel fyrir páskana því Kaupfélag Skagfirðinga hafi gefið rausnarlega gjöf í lok síðasta árs þegar fyrirtækið gaf 40.000 máltíðir.
Í febrúar voru sextán úthlutunardagar og í mars verða þeir tuttugu. Haft er eftir Ásgerði að neyðin hér á landi sé meiri en tölur Fjölskylduhjálparinnar gefi til kynna því fjöldi fólks leiti til annarra hjálparsamtaka.
Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, sagði að umsóknum um neyðaraðstoð hafi fjölgað um 40% frá því að heimsfaraldurinn skall á. „Það er búið að vera mjög mikið að gera hjá okkur alveg síðan COVID skall á með atvinnuleysi og slíku en svo er alltaf meira í kringum páska og aðrar hátíðir,“ er haft eftir henni.