Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir honum að hann viti ekki hversu mikið þetta ýti undir ferðir fólks hingað til lands í sumar en reynsla sé á því að atburðir sem þessir geti vakið mikinn áhuga á landinu.
Í því sambandi má nefna að gosin í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi fengu mikla umfjöllun fjölmiðla erlendis og eru talin hafa ýtt undir ferðir margra hingað til lands.
Haft er eftir Jóhannesi að gosið hafi nú þegar haft áhrif á ýmis ferðaþjónustufyrirtæki og þá ekki síst þyrlufyrirtækin sem anni ekki eftirspurn eftir útsýnisflugi yfir gosstöðvarnar. „Áhrifin af gosinu eru þess vegna jákvæð á ýmsa lund, en ég treysti mér ekki til að segja hverju það skili þegar upp er staðið,“ er haft eftir honum.
Hann sagði að fyrirtæki í ferðaþjónustunni séu byrjuð að nota myndir af gosinu til almennrar landkynningar. „Mikilfenglegar myndir af eldgosum fara fljótt á flug um heiminn, þar sem ógurleg fegurð náttúrunnar í sinni hrikalegustu mynd hefur mikil áhrif. Þetta vekur alltaf mikla athygli og hún nýtist okkur,“ sagði hann.