Gunnar Smári Egilsson, forseti framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, er ekki sáttur með aðgengi að eldgosinu og kvartar yfir tuði hjá þeim sem segja að almenningur sé vitlaus og óhlýðinn. Það hafa einna helst verið almannavarnir og Slysavarnarfélagið Landsbjörg sem hafa varað fólk við því að fara að gosinu.
Þetta kemur fram í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag. Hann rifjar upp að hin ýmsu ferðaþjónustufyrirtæki hafi skipulagt ferðir skyldi til eldgoss koma en hann hafi ekkert heyrt frá þeim síðan það byrjaði að gjósa.
„Átti þetta ekki að vera túristagos? Hvers vegna eru þarna ekki komnir merktir slóðar, fróðir leiðsögumenn, ferðaklósett og einhver að selja kakó og vöfflur? Það væri líka stíll á því að hafa einn predikara sem boðar heimsendi, kannski ekki í forgrunni heldur einhvers staðar þarna í hópnum,“ segir Gunnar og bendir á að aðeins tveir Íslendingar hafi látist í eldgosum og að ekkert bendi til þess að fólk sé að fara sér að voða.
„Það væri nær að banna fólki að keyra bíl. Mætti þetta ekki vera þjóðhátíð frekar en þetta endalausa tuð yfir hvað almenningur er vitlaus og óhlýðinn?“ skrifar Gunnar en Landsbjörg og almannavarnir hafa varað fólk við því að heimsækja gosstað enda eru náttúruöflin óútreiknanleg og lítið þarf að gerast til að hraunstreymi breytist eða aukist.
Færsluna hans Gunnars má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.
https://www.facebook.com/gunnar.smari.egilsson/posts/4178106168874516