Íslenska ríkið hefur komist að sátt við Aldísi Schram vegna brots lögreglustjóra á persónuverndarlögum með því að hafa skrifað upp og sent þriðja aðila skjal sem innihélt persónuverndarupplýsingar um Aldísi. Samkvæmt samkomulaginu, sem DV hefur undir höndum, skal ríkið greiða Aldísi samtals 1.2 milljónir í miskabætur auk 400 þúsunda í málskostnað. Samtals fær Aldís því 1.6 milljónir frá ríkinu vegna brots lögreglunnar.
Þar segir jafnframt að málinu teljist nú lokið og að Aldís skuldbindi sig til að hafa ekki uppi frekar kröfur gagnvart ríkinu varðandi þetta mál.
Í bréfinu umrædda, sem aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sendi til foreldra Aldísar Schram, Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrrum ráðherra og sendiherra og Bryndísar Schram, kemur fram að lögreglan hafi haft afskipti af Aldísi og/eða sinnt verkefnum er vörðuðu afskipti lögreglu af henni og þar jafnframt staðhæft að foreldrar Aldísar, Jón og Bryndís, hefðu ekki óskað eftir þeim afskiptum. Bréfið var sent 5. janúar 2012.
Bréfið var stimplað og undirritað af þáverandi aðstoðarlögreglustjóra, Herði Jóhannessyni. Bréfið sjálft má sjá á mynd hér að neðan.
Aldís kærði bréf aðstoðarlögreglustjórans til Persónuverndar í maí árið 2019. Persónuvernd úrskurðaði svo í ágúst í fyrra að bréf lögreglunnar væri ekki í samræmi við persónuverndarlöggjöf og hefði þannig brotið á rétti Aldísar. Úrskurðinn kallaði Aldís sjálf, „fyrsta sigurinn af mörgum.“
Efnislegt innihald bréfsins reyndist svo þegar öllu var á botninn hvolft rangt, því nú liggur fyrir að Jón Baldvin sendi vissulega bréf á lögreglunni og óskaði eftir afskiptum hennar af dóttur sinni, Aldísi Schram. Þau afskipti lyktuðu árið 2002 með nauðungarvistun Aldísar á geðdeild, sem Aldís telur hafa verið ólögmæta. Bréf Jóns var skrifað á bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington D.C. og hefur nú víða verið birt opinberlega.
Jón Baldvin höfðaði nýverið mál gegn Aldísi dóttur sinni og fór aðalmeðferð málsins fram í febrúar síðastliðnum. Von er á dómi í því máli í þessari viku eða þeirri næstu. Í vitnastúku viðurkenndi Jón að hafa sent bréfin og færði þau rök fyrir notkun á bréfsefni sendiráðsins, að enginn annar pappír hafi verið tiltækur á skrifstofunni. Óhætt er að segja að sú staðhæfing hafi verið dregin sundur og saman í háði af lögmanni Aldísar sem spurði meðal annars hvort allt útprentað efni í sendiráðinu væri prentað á bréfsefni sendiráðsins.