Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að málið hafi snúist um rétt Sigríðar Helgu til forfallalauna á meðan hún var í veikindaleyfi. Taldi dómurinn að þessi réttur næði lengra en næmi uppsagnarfresti hennar.
Sigríður Helga fór í veikindaleyfi í nóvember 2018 á grundvelli læknisvottorðs þar sem staðfest var að hún væri óvinnufær. Í lok apríl 2019 var henni sagt upp störfum. Sagði Elísabet Siemsen, rektor MR, að uppsögnin væri tilkomin vegna niðurskurðar í tengslum við styttingu framhaldsskólans. Sigríður fékk þá laun út uppsagnarfrestinn, eða út júlí.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði átt rétt á launum í 360 daga eftir að veikindaleyfi hennar hófst, óháð uppsögn. Hún fær því laun fyrir rúma þrjá mánuði auk málskostnaðar upp á 850.000 krónur.
DV skýrði frá máli Sigríðar Helgu í júní 2019. Í því sagði hún meðal annars að hún hefði verið kölluð á fund rektors, daginn áður en hún fór í veikindaleyfi, þar sem henni var skýrt frá kvörtunum varðandi kennsluhætti hennar en Sigríður sagði lítið hafa verið hæft í þessum kvörtunum. Henni var þá boðið að þiggja starfslokasamning eða fá áminningu og var þetta viss hótun að mati Sigríðar Helgu. Hún vildi ekki sætta sig við þessa kosti og fór í veikindaleyfi í kjölfarið.