Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að starfsfólk skrifstofu Samfylkingarinnar hafi ekki haft nein kynni af Halli Gunnari Erlingssyni, sem er grunaður um að hafa skotið á skrifstofu flokksins og bíl Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri flokksins, sagði að lögreglan hefði spurt starfsfólkið um Hall.
Hallur, sem er sextugur, er í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna. Gæsluvarðhaldið rennur út í dag og ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald. Málið er rannsakað sem brot gegn valdstjórninni og því er það embætti héraðssaksóknara sem fer með rannsókn þess en ekki lögreglan.
Fréttablaðið hefur eftir Kolbrúnu Benediktsdóttur, varahéraðssaksóknara, að skotárásirnar séu ekki rannsakaðar sem hryðjuverk þar sem ekkert hafi komið fram við rannsókn málsins sem bendi til að um hryðjuverk hafi verið að ræða.
Ekki hefur verið skýrt frá af hverju grunur beinist að Halli en hann er skráður eigandi skotvopna. Annar maður var handtekinn vegna málsins og var lagt hald á skotvopn í hans eigu vegna rannsóknar málsins.