Danska lögreglan telur að Freyja Egilsdóttir, íslensk kona frá Selfossi sem fannst myrt á heimili sínu, hafi þegar verið látin á laugardaginn en þá bárust vinnuveitanda hennar skilaðboð frá henni þess efnis að hún væri veik og kæmist ekki til vinnu. Samkvæmt frétt hjá Extra Bladet telur lögreglan að Freyja hafi þegar verið látin á laugardagsmorguninn. Fyrrverandi eiginmaður Freyju hefur játað á sig morðið.
Síðast sást til Freyju á fimmtudagskvöldið fyrir viku er hún lauk kvöldvakt á vinnustað sínum, en hún starfaði við umönnun á dvalarheimili aldraðra í Odder á Jótlandi.
Á laugardagsmorguninn barst yfirmanni Freyju sms frá henni þess efnis að hún væri veik og kæmist ekki í vinnu. Í viðtali við Extra Bladet segir yfirmaðurinn að Freyja myndi aldrei láta vita um forföll með þessum hætti.
Yfirmaður Freyju, Anni Andersen, fer fögrum orðum um hana. Segir hana hafa verið harðduglega og afskaplega viðkunnanlega og lífsglaða konu. Anni var ekki kunnugt um neina heimiliserfiðleika hjá Freyju, hann vissi það eitt um þau mál að hún væri skilin. Segir hann að hvorki hann né vinnufélaga Freyju hafi grunað að henni gæti verið hætta búin.
Freyja Egilsdóttir er frá Selfossi en hún flutti til Árósa á Jótlandi í Danmörku árið 1999 og hefur búið þar síðan. Flest skyldmenni hennar búa á Íslandi en systir hennar býr einnig í Danmörku. Árið 2000 hóf Freyja samband með manninum sem grunaður er um að hafa myrt hana. DV hefur ekki upplýsingar um hvenær þau skildu en þó liggur fyrir að þau voru enn saman árið 2019.
Freyja var þýsk í móðurættina en átti íslenskan föður sem lést árið 2019. Hún talaði reiprennandi þýsku. Hún bjó um tíma í Austurríki og Frakklandi en það var fyrir 1999, er hún fluttist til Árósa. Hún lauk mastersprófi í málvísindum frá háskólanum í Árósum árið 2010.
Maðurinn sem grunaður er um að hafa myrt Freyju hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.